Halla Sólveig Sigurgeirsdóttir
Það er svo sannarlega rétt, að morgundeginum getur enginn gengið vísum að.
Sumir eru teknir frá okkur alltof snemma – í blóma lífsins, einmitt þegar þeir ætla að fara að njóta til fulls. Hvernig var hægt að ímynda sér að þú værir á förum? Maður trúir þessu bara ekki. Þú sem áttir svo margt eftir að gera, ferðast, hjóla og ganga með Vali þínum og fjölskyldunni sem var þér svo kær. Þið voruð bara að skreppa suður, en þú áttir svo ekki afturkvæmt.
Hvernig er hægt að hugsa það til enda að eiga ekki eftir að sjá þig aftur, að heyra ekki; „er einhver þarna“, þegar þú gekkst inn á baklóðina hjá okkur og komst inn á pallinn þangað sem við hjónin sátum á góðviðrisdegi. „Lóðin er mjög falleg hjá ykkur núna,“ sagðir þú eftir að hafa gengið um, settist svo og spjallaðir um alla heima og geima … „mig langaði bara að koma við og fá smá kaffisopa“, sast og spjallaðir í góða stund, svo ljúf og glöð. Og við hlógum saman öll þrjú. Yndislegar minningar.
Það var ótrúlega ánægjulegt að ferðast með ykkur, hvort sem var í sólarferðum og hjólaferðum erlendis eða hjólhýsaferðum um Ísland. Þú varst einstaklingur sem gaman var að vera með hvar sem var, hlusta á þig segja frá, svo einlæg og trú í þinni glaðværð og gríni. Og víst er hugurinn undarlega tómur þegar aldrei heyrist aftur þessi rómur.
Og svo þessi umhyggja sem umlukti alla. Alltaf varstu að fylgjast með öðrum, hvernig þeir hefðu það, hvort eitthvað væri hægt að gera, eða að leiðbeina manni til betri vegar, meira öryggis, betri heilsu. Þú varst einstaklingur sem gerðir aðra að betri manneskjum með nærveru þinni og við hin erum ríkari fyrir vikið.
Þú varst ekki orðin tíu ára þegar ég kynntist þér fyrst. Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að verða þér samferða þennan spöl á lífsins vegi elsku Solla mín – en nú get ég því miður ekki lengur sagt þér það augliti til auglitis eins og áður, sagt þér hvað mér þótti undur vænt um þig. Þetta er skarð sem erfitt verður að fylla, svo mikið er víst. En lífið heldur áfram og við verðum að lifa með þessum sára missi.
Elsku Valur, Elvar Knútur, Sigurgeir, Ingibjörg Lind, Sigrún Eva og fjölskyldur ykkar, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra. Megi allar góðar vættir vernda ykkur og styrkja í því erfiða verkefni sem fram undan er.
Takk fyrir allt sem þú varst mér og mínum elsku Solla mín.
Aðalbjörg María (Adda)