Halla Sólveig Sigurgeirsdóttir
Lífið er ekki alltaf sanngjarnt. Með sorg í hjarta kveð ég elsku hjartans fallegu systur mína. Solla var ekki bara systir mín, hún var líka mín besta vinkona. Við vorum mjög nánar og á milli okkar var órjúfanlegur strengur.
Það er erfitt að koma því í orð hvernig tengingin var milli okkar systra. Ég fann á mér þegar hún ætlaði að hringja og öfugt og þegar við hugsuðum hvor til annarrar. Það var eins og þessi tenging styrktist bara með árunum.
Það er margs að minnast en við leiðarlok er mér efst í huga þakklæti fyrir allt sem Solla var mér og gaf mér. Hún var góðhjörtuð, fyndin, hjálpsöm og gjafmild. Heil í gegn. Það er ekki sjálfgefið að hafa fengið að verða samferða henni í gegnum lífið.
Solla var alltaf til staðar fyrir fólkið sitt og hélt í höndina á mér í gegnum erfiða tíma. En við sem eftir sitjum huggum okkur við minningarnar og góðu stundirnar sem við áttum með henni. Samverustundirnar hjá mömmu og pabba í Hraungerði það sem við fjölskyldan komum saman, hláturinn og grínið.
Valur og Solla eiga eitt það fallegasta samband sem ég þekki til. Börnin þeirra fjögur bera þess merki að vera alin upp á góðu og ástríku heimili enda öll sérlega vel gerð.
Ég á eftir að sakna elsku systur minnar óendanlega mikið. Þetta er nokkuð sundurleit minningargrein en ætli hún endurspegli ekki huga manns þessa dagana.
Elsku Valur, Elvar Knútur, Sigurgeir, Inga Lind og Sigrún Eva, megi Guð veita ykkur styrk og vaka yfir ykkur. Solla okkar verður alltaf með okkur.
En samt er hún þarna,
hljóðlát bak viðstjörnuþokurnarOg þarf ekkiað láta sannatilvist sína
(Gyrðir Elíasson)
Þín systir,
Svanhildur Sigurgeirsdóttir