Halla Sólveig Sigurgeirsdóttir
Elsku systir. Mig setti hljóðan þegar ég fékk símtalið um að þú hefðir mjög óvænt kvatt þennan heim eftir hetjulega baráttu. Nú sit ég hér með tárin í augunum og er að rifja upp allar góðu minningarnar sem ég á um þig.
Það er margs að minnast. Efst í huga mér er vinátta okkar sem var alltaf eins og best verður á kosið. Fyrir mér þá vorum við alltaf mjög náin og kannski höfum við verið svolítið lík á margan hátt. Ofarlega í huga mér eru allar ánægjulegu samverustundirnar sem við áttum saman. Hvort sem við vorum á Spáni eða annars staðar í heiminum, útilegurnar alveg ógleymanlegar og hjólaferðirnar erlendis sem voru frábærar ekki síst vegna samveru við ykkur hjónin. Að ég tali nú ekki um allar ánægjulegu stundirnar sem við áttum saman á ykkar fallega heimili þegar við ræddum um daginn og veginn á léttum nótunum. Það var oft stutt í grínið hjá þér, þú gast hlegið að hlutunum og séð skemmtilegu hliðarnar á málunum.
Þú varst mjög umhyggjusöm gagnvart öllum, passaðir upp á að allir í kringum þig hefðu það sem best. Ég er orðinn sjötugur og við að fara út að ganga með gönguhópnum okkar og þú sagðir: „Palli minn, ertu nógu vel klæddur?“ Eða þegar við vorum erlendis og þú sagðir: „Ertu búinn að bera á þig sólarvörn?“ og „ertu að drekka nóg vatn?“ Alltaf að hugsa um aðra af einskærri umhyggju. Og þú varst alltaf að spyrja um börnin okkar og fjölskyldur, vildir fylgjast vel með þeim.
Nú reyni ég að brosa í gegnum tárin þegar ég minnist þín.
Þegar ég keyrði ykkur á flugvöllinn átti ég svo sannarlega ekki von á öðru en þið kæmuð heim eftir viku eins og til stóð. En það fór nú á annan veg. Ég veit að velferð fjölskyldu þinnar skipti þig mestu máli í lífinu og nú sitja þau og sakna. Elsku Valur og fjölskyldan öll, ég votta ykkur öllum mína dýpstu samúð í ykkar mikla missi og sorg.
Takk fyrir allt og allt, elsku Solla systir.
Mér þykir óendanlega vænt um þig og þín verður sárt saknað.
Páll (Palli bróðir)