Halla Sólveig Sigurgeirsdóttir
Elsku mamma var einstök. Hún var hlý, brosmild og gaf mikið af sér. Ekki aðeins gagnvart okkur systkinunum heldur öllu hennar samferðafólki. Hennar verður saknað meira en orð fá lýst. Það er okkur óskiljanlegt að mamma hafi þurft að kveðja. Við trúum því varla ennþá og er sorgin yfirþyrmandi og söknuðurinn mikill. Hugur okkar leitar ósjálfrátt til mömmu í hversdeginum því það er svo ótal margt sem minnir okkur á hana, ekki síst nú í desember. Þrátt fyrir að hafa alltaf haft mikið fyrir stafni þá naut hún jólanna því það var tími sem fjölskyldan kom saman. Tími þar sem við gerðum hlé á ati hversdagsins og nutum samvista hvert við annað. Fjölskyldan var mömmu nefnilega allt og við höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera samheldin og náin. Það er ekki síst mömmu að þakka því hjá henni var fjölskyldan alltaf í forgrunni. Hún var okkur öllum fyrirmynd fyrir það eitt að hafa verið eins og hún var. Umhyggjusöm mamma og amma sem gerði allt fyrir börnin sín og barnabörn.
Við minnumst mömmu okkar sem var hamingjusöm og ástfangin. Samband mömmu og pabba hefur alla tíð verið einstakt. Mamma og pabbi voru búin að vera saman í næstum hálfa öld eða síðan þau voru unglingar. Alltaf jafn hamingjusöm, alltaf jafn ástfangin. Það virtist ekkert sjálfsagðara en að þau ættu eftir önnur 50 ár saman. Svo verður því miður ekki. En þau 50 ár sem mamma og pabbi áttu saman einkenndust af ást og hamingju enda ræktuðu þau sambandið af mikilli alúð. Það er ekki sjálfsagt að vera hamingjusamur og ástfanginn í hálfa öld. Þau ferðuðust víða innanlands og erlendis með fjölskyldu og vinum og sinntu áhugamálum. Þau kunnu að lifa lífinu og nutu hvers einasta dags saman.
Brotthvarf mömmu mun ekki draga úr samveru fjölskyldunnar heldur þvert á móti. Við höfum aldrei þurft jafn mikið hvert á öðru að halda og einmitt núna. Við höfum hvert annað og það er ekki síst fyrir tilstilli mömmu. Mamma lagði mikið upp úr samveru með fólkinu sínu og mikilvægi þess að treysta fjölskylduböndin. Það munum við gera. En það eru tímamót hjá okkur öllum, því miður. Mamma hefur ávallt verið svo stór hluti af okkar lífi. Við getum enn sem komið er ekki fyllilega gert okkur grein fyrir því sem koma skal. Hvernig hversdagurinn verður án þess að geta leitað til mömmu. Eins erfitt og það er að horfa fram á veginn, vitandi að mamma verður ekki með okkur í raunheimum, þá veitir það ákveðna huggun að hugsa til baka. Það er erfitt að vera þakklátur akkúrat núna þegar mamma er nýlega fallin frá, en við gerum okkur grein fyrir því hve lánsöm við erum fyrir að hafa átt einstaka móður. Elsku pabbi er sömuleiðis lánsamur að hafa átt einstakan lífsförunaut í mömmu. Við ætlum að vera þakklát fyrir það, þó okkur finnist ósanngjarnt og sárt að mamma sé farin. Elsku mamma, við söknum þín. Þú verður alltaf hjá okkur.
Elvar Knútur, Sigurgeir, Inga Lind og Sigrún Eva.