Halla Sólveig Sigurgeirsdóttir
Ég trúi því ekki að ég sé að reyna að skrifa minningargrein um þig á þessum tímapunkti, elsku frænka og vinkona, það var erfitt símtalið sem ég fékk um að þú værir látin eftir svona stutt veikindi. Ég sit og hugsa um þig og vil ekki og get ekki trúað því að þetta sé í raunverulegt.
Við vorum mjög nánar alla okkar æsku saman í bekk, fyrst í Oddeyrarskóla, síðan Glerárskóla og útskrifuðumst að lokum sem gagnfræðingar úr gagganum. Við fermdumst saman og fórum í útilegur, það var svo gaman að vera unglingur og leika sér.
Eftir skólagöngu okkar minnkuðu samverustundirnar en alltaf heyrðum við hvor í annarri þótt stundum liði alltof langt á milli. Í veikindum mínum fyrir nokkrum árum sýndir þú mér svo mikla umhyggju, hringdir og tékkaðir á mér og hvattir mig áfram með jákvæðni, þessi símtöl og spjallið okkar er mér svo dýrmætt.
Fyrir um tveimur árum sendir þú mér svo fallega mynd af okkur saman þar sem við erum ca. tíu ára gamlar og skrifaðir með að þú hefðir verið að fletta í gömlum myndum frá mömmu þinni og fundið þessa flottu mynd af okkur vinkonunum og frænkum og þér þætti svo vænt um hana og já þessa mynd er ég búin að skoða aftur og aftur síðustu daga, og já, hún er yndisleg.
Þegar við settumst niður yfir kaffibolla var alltaf eins og við hefðum hist í gær höfðum svo mikið að tala um og gleymdum tímanum. Svo dásamlegar stundir sem hefðu mátt vera svo miklu fleiri. En við höldum alltaf að við höfum nægan tíma og ætlum að gera hlutina seinna.
Elsku Solla, takk fyrir heimsóknina núna í nóvember, dásamlegt kvöld og mikið spjallað, ræddum um fjölskylduna, börnin okkar og barnabörn. Þú kvaddir með því að segja nú yrðum við að fara að vera með árgangshittinga að minnsta kosti á fimm ára fresti, því við vitum aldrei hvenær okkar síðasti árgangshittingur er þar sem við erum farin að eldast.
Elsku Valur, Elvar Knútur, Sigurgeir, Inga Lind, Sigrún Eva og fjölskyldur. Missir ykkar er mikill og megi allir englar vaka yfir ykkur Takk fyrir allt elsku frænka og vinkona þín verður sárt saknað.
Helga Eymundsdóttir