Halla Sólveig Sigurgeirsdóttir
Elsku Solla.
Fallega, ljúfa og hægláta Solla sem vildi öllum svo vel og hugsaði svo einstaklega fallega um stóru fjölskylduna sína.
Ég var ekki byrjuð í skóla þegar ég flutti í Steinahlíðina og við Inga Lind urðum bestu vinkonur. Ég varð fljótt daglegur gestur á heimili Sollu og Vals. Gestur er í raun alls ekki rétt orð því ég varð strax hluti af fjölskyldu þeirra. Þeirra heimili varð mitt annað heimili og þau mínir aðrir foreldrar. Alltaf stóðu dyrnar opnar fyrir mér og gera það enn í dag.
Mér er svo sérstaklega minnisstætt þegar Sigrún Eva fæddist. Við vinkonur vorum á tólfta ári og óskaði ég þess heitt að eignast líka lítið systkini. Þegar komið var með Sigrúnu Evu heim af fæðingardeildinni sagði Solla við mig að ég mætti eiga hana með þeim, ég mætti eiga litlu tána hennar. Svona var Solla, alltaf að hugsa um aðra. Þessi minning yljar.
Þrátt fyrir að hafa hitt Sollu og Val sjaldnar síðustu ár þá veit ég að þau fylgdust alltaf vel með mér og mínum úr fjarska. Það var alltaf gott að hitta þau og fá innilegt Solluknús. Ég mun sakna þess.
Missir okkar allra sem þekktum Sollu er mikill. Mestur þó Vals, barna og barnabarna hennar.
Elsku Solla, takk fyrir allt.
Ég mun passa Ingu Lind og strákana fyrir þig.
Þín,
Kristín Hólm