Halla Sólveig Sigurgeirsdóttir
Ég kynntist Sollu minni sumarið eftir að við kláruðum grunnskólann. Við urðum strax náin og fljótt kom í ljós að við áttum mjög vel saman, vorum lík en um leið ólík og bættum hvort annað upp. Áhugamálin voru sameiginleg, handboltinn, útivist og íslensk náttúra. Við ferðuðumst um landið um leið og hún fékk bílpróf, útilegur í Vaglaskógi tvö saman, því við vorum hvort öðru nóg. Á þessum árum lögðum við grunn að ævilöngu sambandi, fallegu, yndislegu og ástríku.
Þegar ég horfi til baka yfir þau 50 ár sem eru liðin er mér efst í huga þakklæti fyrir að fá að deila ævinni með jafn yndislegum vini og hún er. Hún gaf mér lífið og fékk mig til að sjá það góða og fallega við að lifa í núinu.
Hún lifði fyrir fjölskylduna. Elvar Knútur fæddist viku eftir útskrift mína frá MA en þá höfðum við stofnað okkar fyrsta heimili. Eftir að hafa flust til Reykjavíkur og búið þar í fjögur ár kom Sigurgeir. Solla mín vann þann tíma hjá Útvegsbankanum og sá okkur farborða, eins og alltaf. Akureyri togaði í okkur, við fengum bæði góð atvinnutilboð fyrir norðan og við fluttum aftur heim. Þar var fjölskyldan og þar vildum við vera. Inga Lind fæddist næst og við vorum fimm saman í 12 ár, eða þar til sólargeislinn okkar Sigrún Eva kom í heiminn. Þvílík gleði og þvílík ást og umhyggja sem mamma Solla veitti okkur, ástríkt heimili með röð og reglu þar sem öll fengu að njóta sín.
Við höfðum bæði beðið dálítið eftir barnabörnunum en þegar þau komu blómstraði amma Solla í nýju hlutverki og þau upplifðu þessa einstöku ástúð, væntumþykju og hlýju sem amma veitti. Að koma í Sunnuhlíðina til ömmu, fá að skríða upp í ömmu holu að morgni dags, að leika með allt dótið úr geymslunni og fá ís og nammi. Svo var farið í útilegur með ömmu og afa í hjólhýsinu. Allt þetta og meira til var einstök upplifun sem þau munu minnast um alla tíð.
Solla mín elskaði að ferðast. Í seinni tíð höfum við notið þess að ferðast vítt og breitt um landið sem og heiminn. Langoftast tvö saman, séð framandi slóðir og upplifað framandi menningu. Hjólaferðirnar með frábærum vinum gáfu einstakar ánægjustundir.
Ég þakka þó mest fyrir gæðastundirnar sem við áttum heima í Sunnuhlíð. Sitjandi saman á sumarkvöldi úti á svölum, njóta veðurblíðu, við stofugluggann á vetrarkvöldum og dást að bænum okkar, Vaðlaheiðinni og stjörnunum. Hæst skora þó morgunstundirnar, að elda grautinn og leggja á borðið. Setjast svo á rúmstokkinn, vekja þig með kossi og bjóða þér góðan dag og segja þér hvað ég elska þig; grauturinn er tilbúinn.
Ég sá kveðjustundina engan veginn fyrir á þessum tímapunkti. Amma í blóma lífsins, yndisleg og allt í senn blíðlynd, glaðlynd og góðviljuð gagnvart öllum sem á vegi hennar urðu. Takk fyrir að vera þú og fyrir allt sem þú gafst mér og okkar yndislegu fjölskyldu. Elskum þig að eilífu … því eins og segir í ástarljóði Jónasar, Ferðalokum:
Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg;
en anda sem unnast
fær aldregi
eilífð að skilið.
Ástarkveðja,
þinn
Valur.