Fara í efni
Minningargreinar

Gunnþóra Árnadóttir

Ég kveð móður mína Gunnþóru Árnadóttur, Dúllu.

Hún var mín besta vinkona frá barnæsku til hennar dauðadags. Strengurinn milli okkar var sterkur, við vorum mjög nánar. Það eru forréttindi að eiga góða móður, alltaf gat ég leitað til hennar, bæði sem barn og fullorðin kona. Hún var alltaf til staðar fyrir mig og alla sína afkomendur. Hún var sá besti hlustandi sem ég hef átt, henni gat ég alltaf treyst. Þegar á bátinn gaf, huggaði hún og hughreysti, vildi helst getað tekið við ýmsum verkefnum mínum, fríað mig við þeim.

Mamma er ein af mínum helstu fyrirmyndum, návist hennar allt mitt líf hefur vonandi gert mig að betri manneskju, þó ég mundi aldrei bera mig saman við hana, það yrði mér svo sannarlega ekki hagstætt.

Eitt var það sem tengdi okkur enn frekar ótrúfanlegum böndum, var þegar við tókum þá ákvörðun að ganga í Alþjóðlega frímúrarareglu karla og kvenna, Le Droit Human, fyrir 31 ári síðan. Þarna eignuðumst við sameiginlega perlu sem hefur svo sannarlega haft áhrif á líf okkar og hugsjónir.

Mamma hafði góðan húmor sem fram kom á hennar ljúfa hátt. Hún talaði alltaf um okkur, börnin sín, sem unga fólkið, hlustaði ekki á að við værum reyndar ekkert ung lengur og þegar ég sagði henni að nú værum við, börnin hennar og makar, að fara í fyrsta skipti í ferð á vegum eldri borgara, var hún snögg upp á lagið, sagði brosandi, „þið eruð samt unga fólkið mitt“.

Þegar mamma var barn var ekki venja að hrósa börnum, það þótti ekki gera þeim gott. Ég benti henni oft á að taka til sín og þakka fyrir þegar henni var hrósað, í stað þess að gera lítið úr því sem hrósað var fyrir. Þá sagði hún gjarnan að ég væri enn að reyna að ala hana upp enda væri hún sannfærð um að ég hefði í eina tíð verið mamma hennar. Mér datt þetta í hug þegar ég sat hjá henni stuttu fyrir andlát hennar, ég strauk enni hennar og svo var ég áður en ég áttaði mig á farin að raula vögguvísu. Það var notalegt svo ég hélt áfram, þarna höfðum við í raun skipt um hlutverk.

Ég kveð elsku bestu mömmu mína, á eftir að sakna hennar alla daga, lífið verður ekki samt. Pabbi lést árið 2014 og allt frá þeim tíma hefur hún saknað hans, enda voru þau mjög samrýmd hjón og miklir vinir. Við þær breytingarnar þurfti hún mikið á mér að halda og við vorum enn meira saman. Eftir að hún flutti á dvalarheimilið Hlíð voru ferðirnar þangað margar í viku og þessa daga eftir að hún lést kemur sífellt yfir mig samviskubit, finnst ég vera að svíkjast um, ég eigi að vera á Hlíð að hitta mömmu. Mikið sem ég á eftir að sakna þess að líta við hjá henni, svara spurningum hennar um hvernig fólkið mitt hefur það, hvort allir séu ekki örugglega frískir og að gera góða hluti.

Ég fæ aldrei fullþakkað að hafa eignast þessa konu sem móður, hún var góð í gegn, bar alla tíð okkur, afkomendur sína, fyrir brjósti sér. Við vorum allt það sem skipti máli, hún fylgdist með okkur öllum, vildi veg okkar sem mestan og bestan og lagði okkur góðar lífsreglur.

Takk elsku mamma, þín

Guðrún Hafdís

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00