Fara í efni
Minningargreinar

Guðmundur Tulinius

Kæri Máni!

Það er erfitt að kveðja vini sína, þegar maður veit að þeir þiggi ekki kaffi og kleinu oftar.

Það var þér líkt að velja þetta veður, snjókomu og norðanvind fyrir kveðjustundina. Snjórinn er reyndar eitthvað sem tengist elstu minningunum um þig, þú í MA efsta bekk og ég tveimur bekkjum neðar. Þá bárust fréttir niður til okkar um skíðakappa úr efstu bekkjum og þú þar á meðal. Mig minnir að skíðin þín hafi verið gul. Það var löngum þannig að við vorum álengdar. Ég á eftir. Meira að segja árið sem ég var í Tónlistarháskólanum í Hannover fékk ég fréttir af þér þar 2 árum fyrr, og þá kominn til Hamborgar. Við náðum svo endanlega að sitja saman á fundum í Rótarýklúbbi Akureyrar, og ég svo heppinn að fá oft far með þér heim eftir fundi. Skemmtilegast þótti mér þegar þú stakkst upp á bíltúr, sérstaklega þegar blóm og fuglar vöknuðu til lífs á vorin. Það gilti einu þótt þú legðir bílnum óvænt og drægir upp sjónauka og beindir honum, stundum nokkuð lengi, að farfugli nýkomnum á varpstöðvar. Þetta var svo fróðlegt eftir á að heyra útlistun þína á viðfangsefninu oft með erlendum heitum. Þú varst alltaf svo skipulagður og nákvæmur á tíma, þó síst í fuglaskoðun. Þú varst mun nákvæmari en ég  í notkun á lýsingarorðum. Fannst að því ef maður beitti ofhóli, áttir til að segja ef ég notaði orðið frábært, þegar ég var að hæla einhverjum fyrir erindi á fundum okkar: „Þetta var gott, en ekki frábært“. Okkur Löllu þótti heimsókn okkar til þín í Berlín í lok október vera einn af hápunktum okkar lífs. Þú sást svo til að við fengjum að klífa á marga tinda þess besta sem sú dásamlega borg hefur upp á að bjóða; i tónlistinni: tónleika í Berlíner Philharmonie, óperu í Staatsoper; í húsagerðarlist: kúpulinn á „Reichstag“þinghúsinu. Að ógleymdri göngunni niður Am Linden.

Þér fórst vel að „planta Berlín í okkar vitund“. Þar mun hún vaxa og vaxa, eins og reyndar allar jurtir sem þú snertir. Fyrirgefðu ég gleymdi að skila kveðju til þín frá Jóhanni garðyrkjumanni í haust. Hann sagði að metið þitt í gulrótarrækt í reitunum hjá Gróðrarstöðinni hefði ekki verið slegið og fengi sjálfsagt að standa um ókomin ár, en gulrótin þín vó rúmlega 6 kílógrömm. Þú mátt vera stoltur af þínum niðjum. Athöfnin í dag í Höfðakapellu og erfidrykkjan í Kjarna bera þeim fagurt vitni. Ég þarf sjálfsagt ekki að segja meira svo þér finnist það ekki oflof og röng uppeldisfræði.

Vertu í friði kvaddur með þökkum fyrir allt og allt.

Jón (Hlölli) og Lalla(Sæbjörg)

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01