Fara í efni
Minningargreinar

Gísli Jónsson

Það er af og til verið að minna mann á, að tím­inn stend­ur ekki í stað. Maður eld­ist og finn­ur það best þegar kær­ir vin­ir og sam­ferðamenn kveðja. Nafni minn, Gísli Jóns­son á Ferðaskrif­stof­unni, er einn þeirra. Hann hafði glímt við erfið veik­indi und­an­far­in ár, veik­indi sem greind­ust þegar nafni var far­inn að rifa segl­in í at­vinnu­rekstri. Hann hafði þá vænt­ing­ar til að geta átt rúm­an tíma til að njóta ávaxta ævi­starfs­ins við að sinna sín­um hugðarefn­um. Þá greip al­mættið harka­lega í taum­ana. Nafni greind­ist með hrörn­un­ar­sjúk­dóm­inn MS, sem sá til þess að að ævikvöld hans varð ekki eins ljúft og hann hafði ætlað.

Ég ræddi við nafna stuttu eft­ir að þetta lá fyr­ir. Hann var að von­um beygður, en hann lét þetta ekki brjóta sig. Nafni lenti oft í brekk­um á lífs­leiðinni, en hafði sig alltaf upp. En nú vissi hann að brekk­an var óvinn­andi. En nafni reyndi að haga segl­um eft­ir vindi og tókst að sigla gegn um þenn­an skerjag­arð með fullri and­legri reisn til hinsta dags.

Það var nafna mikið áfall þegar Þór­unn Kol­beins­dótt­ir kona hans greind­ist með alzheimer­sjúk­dóm­inn, en hún hafði verið hans kjöl­festa frá því þau kynnt­ust ung að árum þegar Þór­unn kom hjúkr­un­ar­nemi til Ak­ur­eyr­ar. Þór­unn var ein­stök kona, hlý, ráðagóð og hæfi­leika­rík. Það var lán þeirra hjóna að kom­ast inn á hjúkr­un­ar­heim­ilið Lög­manns­hlíð, þar sem þau fengu frá­bæra umönn­un. Þar lést Þór­unn í októ­ber 2022.

Ég var bara smá­pjakk­ur þegar ég hafði fyrst kynni af Jóni Eg­ils, föður nafna. Þá fór ég mikið í strætó, sem Jón sá um rekst­ur­inn á. Þá áttu ekki all­ir bíla, þannig að strætó var mikið notaður. Ein­hverju sinni síðdeg­is var ég sest­ur inn í minn vagn við Ráðhús­torgið. En það var eng­inn bíl­stjóri þótt kom­inn væri brott­far­ar­tími sam­kvæmt áætl­un. Fólk var farið að ókyrr­ast, en þá kom for­stjór­inn sjálf­ur á harðahlaup­um eins og storm­sveip­ur, snaraðist inn í vagn­inn og hlammaði sér í bíl­stjóra­sætið og sagði um leið svo all­ir heyrðu: „Bíl­stjór­inn for­fallaðist svo ég verð bara að aka sjálf­ur, þótt ég kunni það varla,“ sagði Jón og hló við. Það fór ör­lítið um mig strák­inn, fannst ótrú­legt að svona jakkafa­takall kynni að aka strætó. En þarna var Jón Eg­ils í ess­inu sínu og þrátt fyr­ir erfiða færð, snjóruðninga og slabb á göt­um kom hann öll­um heil­um í höfn. Hann hafði greini­lega gam­an af þessu í aðra rönd­ina, þekkti flesta sem komu í vagn­inn á leiðinni og spjallaði við þá á létt­um nót­um. Jón var vin­sæll meðal bæj­ar­búa, lip­ur íþróttamaður og brautryðjandi í ferðamál­um á Ak­ur­eyri og Norður­landi. Hann var dríf­andi og vildi hvers manns vanda leysa.

Þess­um eig­in­leik­um Jóns Eg­ils kynnt­ist ég í syni hans eft­ir að nafni flutti aft­ur til Ak­ur­eyr­ar og tók við stjórn­artaum­un­um á Ferðaskrif­stofu föður síns. Nafni var dríf­andi í starfi og hélt lif­andi þeim kyndli sem faðir hans hafði kveikt til fram­fara í ferðamál­um á Ak­ur­eyri. Nafni minn var góður dreng­ur, sem ég og kona mín minn­umst með hlýju og þakk­læti. Fjöl­skyldu hans send­um við hjart­ans samúðarkveðjur.

Gísli Sig­ur­geirs­son, Guðlaug K. Ringsted.

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01