Gísli Jónsson
Það er af og til verið að minna mann á, að tíminn stendur ekki í stað. Maður eldist og finnur það best þegar kærir vinir og samferðamenn kveðja. Nafni minn, Gísli Jónsson á Ferðaskrifstofunni, er einn þeirra. Hann hafði glímt við erfið veikindi undanfarin ár, veikindi sem greindust þegar nafni var farinn að rifa seglin í atvinnurekstri. Hann hafði þá væntingar til að geta átt rúman tíma til að njóta ávaxta ævistarfsins við að sinna sínum hugðarefnum. Þá greip almættið harkalega í taumana. Nafni greindist með hrörnunarsjúkdóminn MS, sem sá til þess að að ævikvöld hans varð ekki eins ljúft og hann hafði ætlað.
Ég ræddi við nafna stuttu eftir að þetta lá fyrir. Hann var að vonum beygður, en hann lét þetta ekki brjóta sig. Nafni lenti oft í brekkum á lífsleiðinni, en hafði sig alltaf upp. En nú vissi hann að brekkan var óvinnandi. En nafni reyndi að haga seglum eftir vindi og tókst að sigla gegn um þennan skerjagarð með fullri andlegri reisn til hinsta dags.
Það var nafna mikið áfall þegar Þórunn Kolbeinsdóttir kona hans greindist með alzheimersjúkdóminn, en hún hafði verið hans kjölfesta frá því þau kynntust ung að árum þegar Þórunn kom hjúkrunarnemi til Akureyrar. Þórunn var einstök kona, hlý, ráðagóð og hæfileikarík. Það var lán þeirra hjóna að komast inn á hjúkrunarheimilið Lögmannshlíð, þar sem þau fengu frábæra umönnun. Þar lést Þórunn í október 2022.
Ég var bara smápjakkur þegar ég hafði fyrst kynni af Jóni Egils, föður nafna. Þá fór ég mikið í strætó, sem Jón sá um reksturinn á. Þá áttu ekki allir bíla, þannig að strætó var mikið notaður. Einhverju sinni síðdegis var ég sestur inn í minn vagn við Ráðhústorgið. En það var enginn bílstjóri þótt kominn væri brottfarartími samkvæmt áætlun. Fólk var farið að ókyrrast, en þá kom forstjórinn sjálfur á harðahlaupum eins og stormsveipur, snaraðist inn í vagninn og hlammaði sér í bílstjórasætið og sagði um leið svo allir heyrðu: „Bílstjórinn forfallaðist svo ég verð bara að aka sjálfur, þótt ég kunni það varla,“ sagði Jón og hló við. Það fór örlítið um mig strákinn, fannst ótrúlegt að svona jakkafatakall kynni að aka strætó. En þarna var Jón Egils í essinu sínu og þrátt fyrir erfiða færð, snjóruðninga og slabb á götum kom hann öllum heilum í höfn. Hann hafði greinilega gaman af þessu í aðra röndina, þekkti flesta sem komu í vagninn á leiðinni og spjallaði við þá á léttum nótum. Jón var vinsæll meðal bæjarbúa, lipur íþróttamaður og brautryðjandi í ferðamálum á Akureyri og Norðurlandi. Hann var drífandi og vildi hvers manns vanda leysa.
Þessum eiginleikum Jóns Egils kynntist ég í syni hans eftir að nafni flutti aftur til Akureyrar og tók við stjórnartaumunum á Ferðaskrifstofu föður síns. Nafni var drífandi í starfi og hélt lifandi þeim kyndli sem faðir hans hafði kveikt til framfara í ferðamálum á Akureyri. Nafni minn var góður drengur, sem ég og kona mín minnumst með hlýju og þakklæti. Fjölskyldu hans sendum við hjartans samúðarkveðjur.
Gísli Sigurgeirsson, Guðlaug K. Ringsted.