Gísli Jónsson
Nú hefur bróðir minn lokið sínu sjúkdómsferli, sem búið var að vera langt og strangt. Hvorki bar þó á örvæntingu né sýndi bróðir minn neina sjálfsvorkunn allan þann tíma sem honum hrakaði og mátturinn þvarr. Sjónin fylgdi fast á eftir magnleysinu með sjónleysi sínu, miskunnarlaust.
Gísli átti ekki skilið annað en það besta og eins og hann óskaði öðrum velfarnaðar hefði verið allt í lagi að hann fengi gott ævikvöld. En eigi má sköpum renna. Alla tíð var minni hans gott og hann fylgdist með bæjarmálum síns heimabæjar. Hann lifði í núvitund.
Stóri bróðir var mér um margt mikil fyrirmynd og reyndi að ganga á undan með góðu fordæmi. Mér tókst nú ekki alltaf að fylgja hans fordæmi, ég varð ekki faðir fyrr en 21 árs, hann 19 ára. Fyrstu íbúðina sína eignaðist hann tvítugur ég 27 ára. Fyrsta bílinn minn keypti ég af honum á vildarkjörum. Hann aðstoðaði mig í að feta þann stíg sem er mörgum erfiður og margslunginn. Gatan ógreiða um fjármál var hans rétti vettvangur og fyrir hans tilstilli keyptum við Haddí okkar fyrstu íbúð. Fyrsta íbúðin var og er mikill þröskuldur ungu fólki enn í dag. Það eru ekki allir sem eiga Gísla fyrir bróður.
Gísli kynntist konu sinni Þórunni Kolbeins á Akureyri það varð þess valdandi að hann flutti suður þar sem hann vann við bankastörf. Þegar faðir okkar sem hafði staðið vaktina við sitt ferðaþjónustufyrirtæki um langt árabil vildi draga saman seglin var Gísli reiðubúinn að taka við kyndlinum. Hann kom norður og hélt áfram að reka fyrirtæki föður okkar. Við vorum samtímis fyrir sunnan um tíma og höfðum fetað veginn áfram saman fyrir norðan allar götur frá 1976.
Gísli seldi ferðaskrifstofuna og rútubíla og snéri sér að öðrum rekstri. Hann var einn af fyrstu mönnum til að hljóta löggildingu á Akureyri sem verðbréfamiðlari og sinnti því um árabil. Hann var hvers manns hugljúfi eins og hinn stóri og trúi vinahópur hans ber vitni um. Þeir voru duglegir að heimsækja hann til síðasta dags. Þakka ber þeim öllum fyrir þá vinsemd.
Við Haddí sjáum nú á bak sæmdarhjónunum Þórunni og Gísla. Við sendum börnum bróður míns og mágs og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.
Egill og Herdís María (Haddí).