Gísli Bragi Hjartarson

Kveðja frá Íþróttafélaginu Þór.
Í dag verður Gísli Bragi Hjartarson múrarameistari og fyrrum bæjarfulltrúi lagður til sinnar hinstu hvílu. Útförin verður gerð frá Akureyrarkirkju og hefst athöfnin kl. 13.
Gísli Bragi Hjartarson fæddist 20. ágúst 1939 hann lést 21. janúar á 86. aldursári eftir erfið veikindi.
Gísli Bragi var afar liðtækur íþróttamaður og var á sínum yngri árum áberandi í íþróttalífi Akureyrar en hann keppti fyrir Íþróttafélagið Þór og var einn sá fremsti. Gísli Bragi lét ungur til sín taka á íþróttasviðinu og í bókum Þórs kemur nafn hans fyrst fram er hann 10 ára gamall keppti á skíðum og vann til verðlauna, kannski þau fyrstu en ekki þau síðustu.
Auk skíðaíþróttarinnar lét hann til sín taka í frjálsum íþróttum, sundi, badminton og körfubolta og sama hver íþróttin var, var hann afar liðtækur. Á skíðalandsmóti 1956 varð hann sigurvegari í norrænni tvíkeppni. Árið 1957 varð hann unglingameistari í frjálsum íþróttum en hann varð hlutskarpastur í langstökki. Á árinu 1958 sigraði hann í 110 m. grindahlaupi og stangarstökki á móti sem fram fór á Akureyri. Einnig varð hann á árinu 1958 Akureyrarmeistari í svigi og skíðamaður ársins 1958.
Gísli Bragi var ekki bara góður íþróttamaður heldur var hann dugmikill í félagsstarfinu hjá Þór en þar er um auðugan garð að gresja. Tók hann m.a. þátt í Álfadansi Þórs árin 1955 og 1957 þar var hann meðal fjölmargra dansara og dansfélagi hann var engin önnur en Aðalheiður Alfreðsdóttir, sem síðar varð eiginkona hans.
Árið 1957 fór hann til skíðaæfinga í Svíþjóð og trúlega verið einn af þeim fyrstu ef ekki sá fyrsti úr Þór, sem fór í slíka æfingaferð, þar dvaldi hann við æfingar um mánaðarskeið. Þegar heim var komið hóf hann strax að kenna drengjum á skíðanámskeiðum.
Í félagsstörfum var hann m.a. í frjálsíþróttaráði Þórs, var gjaldkeri félagsins 1956 og 57 og þá var hann varaformaður Þórs 1958.
Á síðari árum kom Gísli Bragi talsvert að undirbúningi og framkvæmd við byggingu Hamars félagsheimili Þórs. Þar reyndust tengsl hans við atvinnulíf bæjarins, sem múrarameistari og bæjarfulltrúi gulls í gildi.
Gísli Bragi Hjartarson var sæmdur gullmerki Þórs á 109 ára afmæli félagsins 6. júní 2024 og þá var hann enn fremur heiðursfélagi í Golfklúbbi Akureyrar enda var golf íþróttin ástríða hans til fjölda ára.
Eftirlifandi eiginkona Gísla Braga er Aðalheiður Alfreðsdóttir, börn þeirra eru 6 talsins, 5 drengir og ein dóttir. Allir drengirnir 5 urðu miklir afreksmenn í íþróttum og kepptu fyrir Íslands hönd í þeim íþróttum, sem þeir stunduðu.
Um leið og Íþróttafélagið Þór þakkar Gísla Braga samfylgdina í gegnum árin sendir félagið eftirlifandi eiginkonu hans, börnum og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.
Hvíli Gísli Bragi Hjartarson í guðs friði.
Íþróttafélagið Þór


Gísli Bragi Hjartarson – lífshlaupið

Einar Friðrik Malmquist

Brynjar Elís Ákason

Jóhanna S. Tómasdóttir
