Fara í efni
Minningargreinar

Eyjólfur Ágústsson

Eyjólfur Steinn Ágústsson, eða Eyfi eins og hann var alltaf kallaður, er eitt mesta gæðablóð sem ég hef kynnst og aldrei sá ég hann skipta skapi, nema kannski ef Liverpool var að tapa, þá gat hann orðið verulega illur svo ekki sé meira sagt. Eyfi spilaði knattspyrnu með ÍBA og KA um árabil og ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá sem 17 ára kjúklingur að spila með Eyfa, Elmari Geirs, Donna, Steina Þórarins, Halla Haralds o.fl. Þessir strákar höfðu verið kjarninn í ÍBA og síðar KA og spilað saman í mörg ár og átt margar skemmtilegar stundir saman.

Þarna naut hann sín svo sannarlega. Eyfi lék oftast vinstra megin á miðjunni og var einstaklega teknískur leikmaður og frábær á boltann, en gat varla brotið á öðrum leikmanni svo góðhjartaður var hann.

Einn eftirminnilegasti leikur Eyfa var klárlega árið 1982 þegar við KA-menn mættum Manchester United á Akureyrarvelli. Þar var Eyfi fyrirliði og skoraði eina mark okkar í reyndar 1-7 tapi gegn firnasterku liði rauðu djöflanna og í þeim leik var Eyfi reyndar lengstum eins og vinstri bakvörður sakir mikils sóknarþunga andstæðinganna.

Það sama má segja af Eyfa hvað vinnuna varðaði. Eyfi tók við starfi bílasala hjá bræðrum sínum hjá Höldi árið 1979 og var sölustjóri þar um langt árabil. Þar fór hann fram með slíkri lipurð og þjónustulund að aðdáunarvert var. Vandamál voru ekki til staðar, bara lausnir. Óskir viðskiptavina ætíð hafðar í hávegum og tekið á móti öllum með brosi á vör.

Þannig var Eyfi langoftast, brosmildur, jákvæður og þjónustulundaður fram í fingurgóma.

Starfsferillinn hjá Höldi varði í hvorki meira né minna en 40 ár en Eyfi lét af störfum árið 2019 þegar erfið veikindi voru farin að banka upp á alltof snemma.

Við samstarfsfólk Eyfa hjá Höldi þökkum honum fyrir samferðina og sendum Siggu, Skúla syni hans, Huldu og börnum þeirra sem og bræðrum hans og öðrum ættingjum og vinum innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Eyfa.

F.h. Hölds,

Steingrímur Birgisson.

Brynjar Elís Ákason

Kristján Sturluson skrifar
03. febrúar 2025 | kl. 13:40

Brynjar Elís Ákason

Helga Þórsdóttir skrifar
31. janúar 2025 | kl. 10:40

Brynjar Elís Ákason – lífshlaupið

31. janúar 2025 | kl. 10:30

Sigurður Bergþórsson

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
24. janúar 2025 | kl. 13:00

Friðbjörn Axel Pétursson

24. janúar 2025 | kl. 06:00

Jan Larsen

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir skrifar
16. janúar 2025 | kl. 18:00