Daníel Snorrason
Þegar ég minnist Dansa föðurbróður kemur upp í hugann maður sem alltaf var brosandi. Fyrsta minningin um hann með fjölskyldunni í Tjarnarlundinum, þá var hann brosandi og þannig var hann alltaf þegar við hittumst þó árin liðu. Það var nánast líffræðilega ómögulegt að vera eitthvað annað en glaður þegar maður var í návist Dansa enda mikill húmoristi. Hann var alger fyrirmynd og ég er afar þakklátur fyrir hverja stund sem ég átti með honum. Þá var Dansi svo sannarlega vinur í raun.
Ég átti margar góðar stundir með Dansa. Dansi hafði mikla þolinmæði að spila við mig fótbolta og borðtennis á mínum yngri árum. Þegar Dansi fór til útlanda keypti hann ekki bara gjafir fyrir börnin sín, litli frændi fékk líka sitt, gjarnan Liverpool varning. Alltaf var maður velkominn á heimili Dansa og nýársgöngurnar voru eitthvað sem ég vildi ekki missa af.
Kæri frændi, ég ætla að kveðja þig í þínum anda, brosandi þó ég hefði svo gjarnan viljað að hlutirnir hefðu þróast öðruvísi og við hefðum getað hlegið meira saman síðustu árin. Þú skiptir mig máli alla mína tíð.
Björn Björnsson