Fara í efni
Minningargreinar

Daníel Guðmundsson

Daníel Guðmundsson var fæddur á Helgastöðum 29. október 1939 og var alinn þar upp. Hann bjó á Akureyri um árabil en tók við búskap á Helgastöðum vorið 1974 og bjó þar síðan. Seinustu árin dvaldi hann á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hlíð. Kona Daníels var Ólöf Ólafsdóttir frá Garðsstöðum í Ögursveit. Þau skildu 1984. Börn þeirra eru Jón Ólafur f. 1. júlí 1970 búsettur á Akureyri, Guðmundur Kári f. 1. mars 1973, einnig búsettur á Akureyri og Rósa Guðrún f. 1. maí 1974 búsett á Hnappvöllum í Öræfasveit. Barnabörnin eru 14 og langafabörn 2. Daníel varð bráðkvaddur á Hlíð þann 8. október.
_ _ _

Í dag er vinur okkar og nágranni í áratugi, Daníel á Helgastöðum jarðsettur á Möðruvöllum. Hann var reyndar oft búinn að segja að hann ætlaði ekki að láta jarða sig í vígðri mold, sem væri algjörlega tilgangslaust. Best væri að hvíla uppfrá þar sem gamli bærinn á Helgastöðum var.

Daníel var þéttvaxinn og breiðleitur, nokkuð stirðlegur í hreyfingum og talaði oft hratt og óskýrt ef mikið lá á, nema í síma þá var hann afar skýrmæltur. Hafði fengið ákúrur um að erfitt væri að skilja hann í síma og frá þeim degi talaði hann hægt og skýrt í símtölum. Eins og hjá fleirum voru gleraugu hans fylgifiskur og bar sig illa ef þau voru ekki á sínum stað. Daníel var alinn upp í anda gamla bændasamfélagsins og allir hlutir nýttir þar til útilokað var að not væru af lengur. Þegar inniskórnir voru búnir með það besta fóru þeir að styttast, þannig að við seinustu brúkun vantaði um tvær tommur framan á. Eins var með tennurnar, ekki tók því að endurnýja þó þær tíndu tölunni.
Fyrsta minning mín þar sem Daníel kemur við sögu var þegar við bræður vorum í þrifabaði í aluminium bala á þvottahúsgólfinu í Fjósakoti, ég sennilega 4ra ára. Þá kom Daníel inn og var nokkuð við skál, talaði hátt og með nokkrum tilþrifum. Mér leist ekki á blikuna taldi ekki nauðsyn á lengri dvöl í balanum og var frekar feginn nokkru síðar þegar sást á eftir nágranna okkar fara á reiðhjóli sínu aftur niður heimreiðina.

Hann starfaði og bjó á Akureyri í um áratug, en ári eftir lát Guðmundar föður Daníels vorið 1973 flutti hann með fjölskyldu sína í Helgastaði. Þau Ólöf skildu 1984 og eftir það var Daníel að mestu einn á bæ og við búskap allt þar til hann flutti á öldrunarheimilið Hlíð. Völundur bróðir hans kom oft til hans í skemmri og lengri fríum. Þeir bræður voru tengdir nánum böndum, þó um marga hluti væru þeir ekki sammála.

Daníel samdi alla tíð afar vel við sína nágranna og kom reglulega í kaffi og nokkuð öruggt að allir kunnu því vel. Eitt sinn hafði hann á orði að það væri sitt lán hversu góð samskipti hann hefði alla tíð átt við nágranna sína og sveitunga. Samræður voru oft líflegar og hvað bestar þegar stríðni hans komst á flug. Eitt af því eftirminnilegasta var einmitt við eldhúsborðið á Hríshóli á þeim árum sem Bylgja var við nám í höfuðborginni, en var heima þennan dag. Talið barst að Þormóðsstöðum, sem er innsti bær í Sölvadal sem hann taldi mikla úrvals jörð og meðal annars nefndi hann að ekki væru víða betri aðstæður til að beita sauðfé. Við hjón vorum efins, jörðin stæði hátt og nokkuð langt frá aðal byggðinni og Bylgja nefndi að þarna væri vonlaust að búa, það væri meira og minna ófært þangað allan veturinn þegar snjóa legði að. „Það er nú einmitt kosturinn, þá tolla konurnar frekar heima“ svaraði Daníel og átti erfitt með leyna brosinu.

Í eitt skiptið sem ég kom í Helgastaði átti bóndinn erfitt með að segja frá fyrir hlátri, þannig að bágt var á stundum að skilja. Frásögnin snéri að því þegar hann tók stríðnissnúning á Völundi.

Daníel kom inn í eldhús þar sem Völundur dormaði frekar syfjulegur. „Ég fann lík í ánni“, sagði bóndinn og fleygði seðlaveski á borðið. Völundi varð mikið um, spratt á fætur og spurði. „Og hirtir þú bara veskið“. „Já, ég fann ekkert fleira fémætt“, svaraði Daníel. Bróður hans varð verulega um og hellti úr sér skömmum um hvers konar ósvífni þetta væri og hvernig mundi enda. Forsagan var sú að Daníel var niður á túni við Eyjafjarðará við áburðardreifingu og sér hvar maður handan ár kemur ríðandi niður að ánni og skellir sér útí og yfir og þegar kom á Helgastaðatún datt hann af baki og þar fann Daníel veskið.

Þó svo Daníel léti oft sem hann vissi fátt, komst hugurinn á flug ef rætt var um hluti sem gerðust á æsku eða unglingsárum. Minni hans á mörgum sviðum var einstakt og þá ekki síst varðandi byggingar í Möðruvallaplássi þar sem hann gat rakið byggingartíma og efni sem notað var auk þess hverjir unnu við og hvað kostaði. Einnig snéri áhuginn að gömlum dráttarvélum og fór og stoppaði lengi þegar félagsmenn Búsögu sýndu sínar fallegu og vel uppgerðu gömlu vélar. Þar var líka oftar en ekki Tikkan á Helgastöðum (Bavaría árgerð 1951 ef ég man rétt) sem er mjög sérstök vél sem Guðmundur faðir hans keypti á sínum tíma.

Í tilefni 5tugs afmælis færðum við honum bókina Byggðir Þingeyinga 1985. „Það þýðir ekkert að gefa mér bók, ég er hættur að lesa“, voru viðbrögð afmælisbarnsins. Það fór samt svo næstu misseri þegar komið var í kaffi í Helgastaði velti hann fyrir sér þingeyskum bændum. Hann kannaðist við hluta þeirra síðan á 7unda áratugnum þegar hann vann í Kornvöruhúsi KEA.

Kæri vinur og nágranni, þín heilindi og vinskapur voru sönn og trú. Samverustundir okkar voru skemmtilegar og hnyttni í svörum oft óborganleg. Veit þú hvílir í friði og hefðir líka gert upp á gömlu Helgastöðum. Þó kallið bæri snöggt að varstu farinn að bíða. Verst að við kláruðum ekki nógu vel samræðu í síðustu heimsókn á Hlíð um fornar fjalirnar úr kirkjugólfinu á Möðruvöllum, sem enduðu á Helgastöðum. Tökum það fyrir næst.

Sigurgeir B. Hreinsson

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00