Það er erfitt að finna réttu orðin þegar maður kveður einstakan dreng eins og Brynjar mág minn. Sannkallaður lífskúnstner sem elskaði rautt og góða steik. Hann var líka stærðfræðiséní, og átti létt með að leysa flóknustu þrautir. Hann var húmoristi af guðs náð, með glettið bros og hnyttin tilsvör sem létu alla í kringum hann hlæja.
Brynjar var víðsýnn með opinn huga og hann hafði næmt auga fyrir því sem skipti máli, hann sá heiminn í skýrari mynd en flestir og var óhræddur við að rökræða allt á milli himins og jarðar – oft með kímni sem létti á öllu.
Hann átti sér áhugamál, við árbakkann með veiðistöng í hendi þar fann hann friðinn, þar var hann í sínu rétta umhverfi, hann var afar útsjónarsamur stangveiðimaður.
Brynjar var einstakur – gáfaður, fyndinn, skarpur og hlýr. Við sem nutum félagsskapar hans eigum ótal minningar sem fylla hjörtu okkar með þakklæti og söknuði. Hann skildi eftir sig spor sem hverfa ekki, því snilligáfa hans, gleðin og góðmennskan lifa áfram í hugum okkar.
Hvíl í friði, kæri Brynjar.
Gísli Arnar Guðmundsson