Brynjar Elís Ákason
Ég kynntist Brynjari sem polla þegar við Fjóla vorum að rugla saman reitum. Fyrstu kynni okkar voru í Borgarsíðunni, þegar Bryndís kom heim með Sóleyju, Lilju og Brynjar eftir heimsókn þeirra á Nípá. Lítill og ljúfur drengur faldi sig bak við móður sína og virti mig fyrir sér – þennan nýjan vin systur sinnar. Ég man þetta eins og það hefði gerst í gær. Brynjar minnti mig á lítinn, krúttlegan bjarnarhún með stóru, fallegu augun sín. Þegar hann brosti til mín vingjarnlega, fannst mér eins og hann hefði gefið mér grænt ljós og tekið mig í sátt.
Við Brynjar urðum strax miklir vinir. Hann var einstaklega ljúfur og góður drengur, laus við alla stæla og tilgerð – einfaldlega maður að mínu skapi. Ekki skemmdi fyrir að hann hélt með Manchester United og við horfðum saman á ófáa leiki. Hann sagði mér að „Djörk“ væri sinn uppáhaldsleikmaður og sameinaði þannig á sinn skemmtilega hátt nafn Dwight Yorke í eitt. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar ég fór á leik í Manchester og Bryndís bað mig að kaupa Man Utd búning á Brynjar í jólagjöf. Ég man lítið eftir leiknum sjálfum en mun betur eftir leitinni að finna réttu stærðina á Brynjar og gleðinni yfir þessari jólagjöf hans.
Ég á líka ljúfa minningu úr Borgarsíðunni þegar Brynjar vantaði smá hvatningu til að hefjast handa við heimalærdóminn. Amma Solla bað mig að sitja með honum og hjálpa honum aðeins með stærðfræðina. Við sátum saman við eldhúsborðið og þetta var lítið mál fyrir hann – hann áttaði sig fljótt á hlutunum og var alveg með þetta. Ég grínaðist síðar með að amma Solla og ég hefðum lagt grunninn að frábærum námsferli hans með þessari gæðastund. Það var afar ánægjulegt og kom manni ekki á óvart þegar maður fékk fréttir af því þegar Brynjar fékk verðlaun fyrir góðan námsárangur, hvort sem það var í Síðuskóla eða í sínu háskólanámi.
Seinna hittumst við aftur í Borgarsíðunni, þegar ég kom með foreldrum mínum að sækja kassa sem Bryndís hafði geymt fyrir foreldra mína. Þá hafði kappinn heldur betur vaxið og var orðinn nánast maður, þótt hann væri enn í Síðuskóla. Ég sagði honum að það sæist langar leiðir að hann væri ættaður frá Nípá og hann brosti út að eyrum – greinilega stoltur af uppruna sínum.
Þegar ég hitti hann síðar, meðan hann var í Háskólanum, grínaðist ég með að enginn myndi trúa því að ég hefði einhvern tíma unnið hann í gamni slag. Þá kom skemmtilegt glott á okkar mann og hann hló.
Brynjar var einstakt ljúfmenni sem ég minnist með mikilli hlýju og kærleik. Ég á bara góðar minningar um þennan góða og hlýja dreng og fyrir þær er ég þakklátur.
Hugur minn er hjá fjölskyldu Brynjars; Bryndísi, Fjólu, Sóleyju, Lilju og Helgu. Megi minningarnar um Brynjar veita ykkur styrk og huggun á þessum erfiðu tímum. Þótt hann sé horfinn okkur of snemma, mun hlýja hans, góðmennska og gleði lifa áfram með okkur.
Blessuð sé minning Brynjars.
Kristján Sturluson