Fara í efni
Minningargreinar

Björk Elva Brjánsdóttir

Mér finnst óraunverulegt að sitja hér og skrifa minningarorð um fallegu systur mína, bestu vinkonu og sálufélaga. Mér finnst við ættum frekar að vera að skrifast á til að plana næstu ferð út í heim. En hún er farin í sína síðustu ferð án mín og hver sem áfangastaðurinn er verður tekið vel á móti henni. Hún var þannig manneskja að þeir sem kynntust henni líkaði vel við hana, enda gekk hún hreint til verks þegar hún hitti nýtt fólk, hvort sem það voru vinnufélagar, nýir fjölskyldumeðlimir eða einhver sem hún hitti úti á lífinu. Þegar fólk var búið að kynna sig með nafni var næsta spurning hennar: „Hverra manna ert þú?“.

Didda hafði óbilandi áhuga á fólki og lét hvorki laust né fast fyrr en hún var búin að rekja fólk saman. Sumir kalla það forvitni en ég kalla það áhuga fyrir fólki, enda var hún fljót að tengjast fólki og var vinamörg. Hún lét sér annt um aðra. Það voru ófáir sem hún annaðist í starfi sínu sem sjúkraliði á hjúkrunarheimilinu Hlíð og þar kom sér nú vel áhugamálið, því henni fannst ekkert skemmtilegra en að sitja með heldri borgurunum og rifja upp gamla tímann og hlusta á sögurnar. Hún var góður hlustandi. Oft var hún nú búin að sitja og hlusta á systur sína væla yfir einhverju ómerkilegu en alltaf var hún til í að gefa ráðin eða setja ofan í við mig, svona eftir atvikum. Ekki síst þegar ég, ung að árum, var ein með elstu dóttur mína sem eignaðist auka mömmu í systur minni. Didda var hreinskilin og maður fékk hennar skoðun þrátt fyrir að það væri ekki alltaf það sem maður vildi heyra.

Við ferðuðumst mikið saman, síðast til Kanarí síðastliðið vor. Í ferðum okkar áður fyrr var gott að hafa einhvern með sér sem hafði sama áhuga á verslun og viðskiptum, þ.e. að rápa á milli búða og skoða og versla. Síðustu ár hafði áhuginn á rápinu minnkað til muna. Í staðinn nýtti hún sér tæknina, sat heima í sófa og pantaði eins og vindurinn og nutu þá barnabörnin oft góðs af. Hún hafði mikinn áhuga á tísku og fram á síðasta dag var henni umhugað um að vera smekklega klædd og vel til höfð. Á heimili þeirra hjóna, sem var einkar smekklegt og hlýlegt, skipuðu blómin stóran sess, enda hennar stærsta áhugamál. Það var eins og allur gróður væri á sterum hjá henni, það óx allt svo ótrúlega hratt og blómin hennar voru svo falleg og þar átti svo sannarlega við að það vex sem þú veitir athygli. Hún elskaði að vera í fallega garðinum sínum og þar sameinuðust þau hjónin um áhugamál, því Arnar var ötull við að uppfylla óskir hennar um að laga og færa til plöntur. Það var gott að hafa Diddu systir í peppliðinu, hún hvatti mig, taldi í mig kjark ef henni fannst ég vera að guggna og ég vissi að ég gat alltaf leitað til hennar. Það er ómetanlegt að eiga systur sem hlustar, vinsar úr það sem skiptir máli og gleymir svo því sem skiptir engu máli. Ég var svo lánsöm að fá að vera mikið með henni í veikindum hennar, flutti m.a. inn til þeirra í viku vegna fjarveru Arnars. Þá var nú aldeilis tíminn til að spjalla, þegar við vorum komnar upp í rúm á kvöldin. Búnar að horfa á að minnsta kosti eina jólamynd og svo var skrafað um eitt og annað þar til við duttum út af.

Strákarnir hennar Diddu þurfa nú að læra að lifa án mömmu sinnar, sem þeir véku vart frá síðustu mánuði. En þeir hafa hver annan, yndislegir ungir menn sem eiga eftir að halda minningu mömmu sinnar lifandi með sögum og myndum, enda nóg til af hvoru tveggja. Mikill er missir elsku Arnars, sem steig ölduna með henni í veikindum hennar og annaðist hana af einstakri alúð. Þeim votta ég mína dýpstu samúð. Nýtt barnabarn fæðist í vor og það verður okkar allra hlutverk að sjá til þess að hann læri að þekkja ömmuna sem hann aldrei hittir.
Ég er þakklát fyrir að hafa haft systur mína í lífi mínu og mun ætíð minnast hennar, ekki síst þegar ég kaupi mér eitthvað sem ég veit að hana hefði langað í og minnist þá orða hennar í þeim aðstæðum: Er þetta til í fleiri litum?

Systa

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00