Björgvin Þorsteinsson
Ég vil minnast vinar míns Björgvins Þorsteinssonar í fáeinum orðum. Við kynntumst í öðru lífi hvar ég vann í banka, en hann var að vasast í fiskeldi í Dýrafirði. Þá var þröngt um fyrirgreiðslu til minni fyrirtækja fljótlega eftir hrun en allt leystist þetta, ekki síst fyrir rósemd og húmor Björgvins. Frá fyrsta degi var mér ljóst að leifturgreind og kankvísi hans myndi auðvelda mjög þau verkefni sem við áttum fram undan þá og síðar komu á daginn. Við háðum nokkra hildi í réttarsölum í öðrum hlutverkum, þar sem léttleikinn auðveldaði mjög þau þungu mál sem við þá tókumst á við. Veikindi Björgvins ágerðust nokkuð fljótt, en síðustu ár var honum ljóst hvert stefndi þótt aldrei glataði hann húmornum. Fyrir skemmstu hringdi Björgvin í mig snemma morguns til að afla tíðinda. Ég bar mig hálf-aumlega (svona eins og bara karlmenn bera sig í veikindum) því ég hefði verið í bólusetningu deginum áður. Björgvin hváði góðlátlega hverslags ræfildómur þetta eiginlega væri. Ég hresstist undir eins og minntist ekki framar á lumbru. Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst Björgvini og notið vináttu, leiðsagnar og hjálpar hans í erfiðum málum sem og léttari verkefnum. Genginn er drengur góður. Ég votta Jónu Dóru og aðstandendum öllum samúð mína á þessum vegamótum. Hvíl í friði kæri vinur.
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson.