Björg Finnbogadóttir
Látin er á Akureyri tengdamóðir mín Björg Finnbogadóttir, oftast kölluð Bella, á 95. aldursári. Óhætt er að segja að þeir sem lifað hafa á Íslandi síðustu 95 árin hafi lifað tímana tvenna og kunni frá mörgu að segja.
Þannig var það með Bellu, sem fædd var á Eskifirði, en bjó lengst af og starfaði á Akureyri, hún kunni frá mörgu að segja. Ég hafði mjög gaman af því að ná henni á flug við eldhúsborðið og hlusta á frásagnir hennar af mönnum og málefnum samtímans allt aftur til fyrri hluta síðustu aldar. Bella þekkti ógrynni af fólki og átti margar sögur í fórum sínum sem ekki þættu allar prenthæfar. Að þeim sögum hló hún oftast sjálf býsna dátt.
Það einkenndi mjög allt lífshlaup Bellu að hún var sjómannskona. Hún var heima og ól upp börnin á meðan eiginmaður hennar, heiðursmaðurinn Baldvin Þorsteinsson, var til sjós og aflaði. Eins og títt er um sjómannskonur þurfti Bella að sjá um flesta hluti heima við í löngum fjarverum eiginmannsins, heimilisreksturinn, peningamálin, uppeldið, viðhald hússins og þar fram eftir götum. Bella var ákaflega dugmikil og áræðin, gekk í öll verk sem þurfti að sinna og var jafnvíg hvort sem var á saumnál, prjóna, hamar eða pensil.
Bella tók miklu ástfóstri við Hlíðarfjall og dvaldi þar löngum við skíðaiðkun með börnum sínum, enda urðu börnin öll afbragðsgóð á skíðum og dóttir hennar besta skíðakona landsins til margra ára. Í fjallinu kynntist Bella fjölda fólks, jafnt heimamönnum sem aðkomufólki. Það var oft gestkvæmt í Kotárgerði hjá Bellu og Balda, enda voru þau gestrisin með afbrigðum. Alltaf var opið hús fyrir skíðafólk, jafnt í fæði sem gistingu. Naut ég ríkulega þessarar gestrisni þegar ég fór að venja komur mínar í Kotárgerði til að hitta heimasætuna. Ekki get ég sagt annað en að Bella hafi tekið mér afbragðs vel strax frá fyrstu tíð. Var ég alltaf velkominn, líka þegar ég reyndi að komast inn um miðjar nætur, dóttirin á heimilinu steinsofandi og heyrði ekki að barið var á gluggann, þá birtist Bella og hleypti mér inn bakdyramegin.
Sísvangur skólapilturinn var svo fljótlega tekinn í hálft fæði á heimilinu og fékk að ganga í ísskápinn og búrið að vild. Ekki voru þó allir jafn ánægðir með það, og frétti ég síðar að bræðurnir tveir á heimilinu hefðu skotið á neyðarfundi, til að ræða hvernig koma mætti í veg fyrir að þessi aðskotahlutur kláraði allt hnetusmjörið sem Baldi flutti með Súlunni frá Danmörku og geymt var í búrinu. Á þessum tíma var hnossgætið hnetusmjör ekki fáanlegt á Íslandi og höfðu bræður miklar áhyggjur af hve hratt gekk á birgðirnar. Bella upplýsti þó tengdasoninn tilvonandi jafnóðum um nýja felustaði og reyndist honum þar vel, eins og ávallt.
Í huga Bellu var ekki til neitt kynslóðabil. Hún umgekkst fólk á öllum aldri og allir voru jafnir fyrir henni. Barnabörnin og barnabarnabörnin hændust að henni, hún talaði og lék við þau, spilaði við þau og púslaði með þeim, alveg af sama kappi og þau. Stundum fór hún í flóknari púsl og þá þurfti nú aldeilis að passa að halda litlu puttunum frá til að halda friðinn. Það segir líka ýmislegt um Bellu að vinir barnanna hennar líta líka á hana sem sinn vin og margir þeirra heimsóttu hana þó upphaflegu vinirnir væru ekki heima og jafnvel fluttir að heiman. Mér er minnisstæður einn vinur annars bræðranna sem var tíður gestur í Kotárgerði þegar ég var þar að dinglast með heimasætunni. Hann kom í heimsókn til Bellu á kvöldin, þó vinur hans væri víðs fjarri, sat og horfði á sjónvarpið, drakk kaffi, reikti sígarettur og spjallaði við Bellu löngum stundum.
Já það var alltaf fullt í kringum Bellu og svo þekkti hún nánast hvern einasta mann á Akureyri. Það var ekki hægt að fara með henni í bæinn því hún þurfti að tala við hvern þann sem hún mætti. Gaman var hins vegar að fara með hana í bíltúr út í sveit. Frá starfi sínu á skrifstofu sláturhússins þekkti hún nöfn allra bæja í Eyjafirði og víðar, svo og ábúendur alla með nafni og kunni á þeim góð skil.
Bella var kraftmikil og atorkusöm. Til lánsins var hún við góða heilsu og naut lífsins vel allt fram á síðustu stundu. Hún var þakklát fyrir allt sem fyrir hana var gert og kvaddi sátt.
Ég kveð tengdamóður mína með þakklæti og virðingu.
Ingi Björnsson