Fara í efni
Minningargreinar

Björg Finnbogadóttir

Björg Finnbogadóttir, Bella eins og hún var jafnan kölluð, var greind og með afbrigðum minnug. Áhugi hennar á málefnum líðandi stundar var einlægur. Þar spurði hún margs, hafði sínar skoðanir á hreinu en virti að sama skapi sjónarmið annarra. Oftar en ekki vitnaði hún til samtala sem höfðu átt sér stað mörgum árum áður. Fyrir skömmu síðan átti Kristján klukkustundar símtal við hana og varð að standa skil á fjölmörgum spurningum. Samræður hennar voru lausar við tilgerð.

Baldvin Þorsteinsson, eiginmaður Bellu og Vilhelm faðir Kristjáns voru eineggja tvíburar. Samskipti fjölskyldnanna voru því náin á margan hátt.

Það var því engin tilviljun að þrír náskyldir frændur, Þorsteinn Már Baldvinsson, Þorsteinn og Kristján Vilhelmssynir, keyptu saman félag um útgerð fyrir sléttum fjörutíu árum síðan.

Frá fyrsta degi studdi Bella frændurna ungu til dáða, eins og henni einni var lagið. Sá dyggi og staðfasti stuðningur var sannarlega mikils virði, kröftugur og jákvæður byr í seglin.

Áhugi Bellu á skíðaíþróttinni var óbilandi, enda keppandi til margra ára og stundaði skíði sér til gagns og ánægju fram á tíræðis aldurinn. Fjallið var hennar staður.

Skíðamót Íslands 1962 á Akureyri er sérlega minnisstætt, einkum fyrir þær sakir að í raun var ófært upp í Hlíðarfjall vegna aurbleytu í kjölfar mikilla hlýinda. Þrátt fyrir ófærðina sá Bella um að koma okkur krökkunum á keppnisstað á tilsettum tíma, enda uppgjöf ekki að finna í hennar bókum.

Takk kæra Bella fyrir að kveikja neistann á skíðaíþróttinni hjá okkur í fjölskyldunni.

Við kynntumst Bellu sömuleiðis sem eiginkonu sjómanns, Kristján var háseti á Súlunni EA í þrjú ár og Baldvin var skipstjóri. Bella fylgdist vel með úr landi og var í þéttu og þakklátu sambandi við fjölskyldur skipverja.

Ræktarsemi Bellu við börnin okkar var rík og einlæg í gegnum tíðina, alltaf var hún með afmælisdagana á hreinu og aðra merkisdaga í fjölskyldunni.

Við kveðjum Björgu Finnbogadóttur, Bellu, með söknuði. Þökkum einlæglega fyrir samfylgdina í nærri sjö áratugi, þar sem aldrei brá skugga á vinskapinn.

Bella gerði hversdagslífið ríkulegra.

Kæru vinir, Mái, Magga og Finnbogi. Við vottum ykkur og fjölskyldum ykkar dýpstu samúð.

Kolbrún Ingólfsdóttir, Kristján Vilhelmsson og fjölskylda

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01