Fara í efni
Minningargreinar

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Elsku Ásta systir mín er fallin frá. Á milli okkar Ástu voru níu ár, hún var fædd 24. ágúst 1956 og var því nýorðin 68 ára, sem er enginn aldur í dag.

Ásta var mér stoð og stytta alla tíð, hún var með mig í „umsjón“ alla mína bernsku, fyrst í Munkaþverárstræti 12 og í Espilundi 18. Ég hafði aldrei aðra barnapíu en Ástu. Við vorum alltaf saman fyrstu árin mín og eru margar myndir til af okkur þar sem hún er með litla bróðir. Hún var elsta barnabarnið í föðurfjölskyldunni og hafði umsjón með barnahópnum.

Pabbi valdi nafnið hennar Ástu, hann vildi skíra hana nafni sem væri fremst í stafrófinu svo hún yrði ekki alltaf lesin upp síðust eins og hann. Ásta var lík pabba á margan hátt, talnaglögg, minnug og vann í hljóði.

Við systkinin vorum alin upp við það að báðar ömmur okkar voru húsmæður með stóru H eins og var til siðs. Alltaf var nóg til og allir velkomnir í kaffi eða mat. Ásta hélt þeirri hefð fast eftir, það tók hana ekki langan tíma að slá upp veislukaffi eða matarboði. Hún var til staðar fyrir sitt fólk og vinamörg alla tíð.

Sumarið áður en ég fæddist fékk pabbi Finnboga vin sinn sem var í siglingum til að kaupa forláta dúkkuvagn handa Ástu. Vagninn þótti mjög flottur og er enn til eftir því sem ég best veit. Einhverju sinni löbbuðu mamma og Ásta niður í bæ úr Munkaþverárstræti. Ásta var með apa í vagninum og afar ánægð en niðri í bæ hittu þær Guðna bróður pabba sem sagði „Ásta mín þú verður að passa þig, það halda allir að þetta sé bróðir þinn“. Ekki fór apinn aftur með niður í bæ eftir það.

Ung tók Ásta ábyrgð á öllum í kringum sig, hlutverk stóru systur var henni mikilvægt. Sjómannadagurinn og 17. júní voru stórir dagar í uppvexti okkar á Akureyri, nýtt sumardress og skroppið niður á Akureyrarvöll eða miðbæ, enda alltaf sól á Akureyri þá. Oft skruppum við til ömmu og afa í Fjólugötu 15 í kaffi, þar var alltaf fjör enda heill her af krökkum og systkini pabba. Ásta var mikið uppáhald þar og var eins og litla systir með í öllu þar.

Ung byrjaði hún að vinna í Brekku hjá Bjarna Mogga vini pabba, það var spennandi fyrir lítinn gutta að fá að vera með fyrir innan búðarborðið og sjá allt nammið. Nokkra vetur vann hún á Skíðahótelinu, það var mjög flott fyrir mig og frændur mína, kakó, franskar og gos – Ásta sá um okkur. Stundum var gist um helgar þrátt fyrir þekktan draugagang á skíðahótelinu, það var góður tími.

Það var svo sumarið 1976 þegar Gústi, gaur að sunnan, kom norður. Gústi var mér alltaf sérlega góður allt frá fyrsta degi, í raun bróðirinn sem ég hafði ekki átt.

Þau Ásta og Gústi byrjuðu sitt líf saman á Akureyri, heima í Espilundi 18 og svo í Hrísalundi. Gústi var að sunnan í töffarafötum, talaði skringilega og var dálítið „erlendis“ hann hafði farið til London og Spánar. Hann átti BMW 2002 sem mér þótti það flottasta sem ég hafði séð og ég fékk að rúnta með. Hann kom með alvöru stereogræjur og plöturnar, vá! 10cc, Eagles, Boston, Sutherland Brothers, Rolling Stones og Bítlarnir ... ég hugsa að hann hafi opnað fyrir tónlistaráhuga minn. Því það villtasta sem pabbi átti var Elvis, Silfurkórinn og Lúdó og Stefán.

Árið 1978 fluttu þau suður, mömmu til mikils ama. Mér þótti það spennandi, fór oft suður til að vera hjá Ástu og Gústa. Þau komu oft norður og pabbi, ég og Gústi veiddum saman í Djúpá og Fnjóská, það voru góðir tímar.

Það var yndislegur tími og ég skrapp með bílum frá pabba suður í heimsókn. Gústi gaf mér góðan tíma og sýndi mér Reykjavík og það sem var framandi fyrir strákling frá Akureyri. Við fórum mikið bíó, hann skutlaði mér og Tryggva bróður sínum í Háskólabíó að sjá Grease og á Staturday Night Fever, það var ógleymanlegt. Við fórum í öll flottu bíóin og sáum Convoy, James Bond allt það besta sem í boði var, kók og nóg af poppi.

Ég gat alltaf leitað til Ástu og Gústa sama hvert erindið var.

Ásta og Gústi eignuðust þrjú myndarbörn, Halla Sjöfn er fædd 1979, Anna Rut fædd 1984 og Ágúst Orri fæddur 1991. Barnabörnin eru fjögur og eitt á leiðinni.

Gústi lést í maí 1999 eftir erfið veikindi, hann var 41 árs og þá breyttist allt, Ásta stóð ein eftir með þrjú börn og lífið var erfitt. Hún var eins og áður dugleg og reyndi hvað hún gat til að búa börnum sínum gott heimili.

Síðustu árin bjó Ásta með Valdimar Sigurðssyni, Valla, sem var hennar stoð og stytta. Valli hefur verið börnum og barnabörnum ómetanlegur í alla staði. Missir hans og fjölskyldunnar er mikill.

Mín börn Sandra Ýr og Gauti sakna Ástu frænku mikið enda var hún þeim sem amma í Reykjavík alla tíð, missir þeirra er mikill.

Frá Söndru minni: „Ásta frænka var með svo stórt hjarta, alltaf til í að hjálpa, passaði alltaf að allir fengju nóg að borða og að pabbi fengi marengstertuna sína, hún var límið í fjölskyldunni, alltaf hlý og þekkti alla með fullu nafni, mömmu þeirra og pabba, ömmur og afa“.

Ásta var sérstaklega dugleg að kalla saman hópinn, hún var alltaf með bollukaffi, sprengidags saltkjöt og baunir, smurbrauðstertur, marengstertur og ekki síst berjasulturnar; „bláberjasultan er klár Gilli minn“.

Það er skrítin tilfinning að standa nú einn eftir og skrifa minningarorð um systur sína, ég átti von á við yrðum lengur saman. Hún, þessi besta amma í heimi var með næg verkefni.

Þá eru þau öll, pabbi, mamma, Gústi og Ásta, farin og eftir standa minningar og sögur sem ég þarf að muna fyrir næstu kynslóðir. Kannski er ég einhvers konar blanda af þeim öllum, ég veit það ekki, en ég skal reyna að halda utan um hópinn minn eins og ég get.

Blessuð sé minning Ástu Þórunnar systur minnar.

Gunnlaugur Þráinsson (Gilli)

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00