Fara í efni
Minningargreinar

Árni Björn Árnason

„Elsku, elsku besti afi í öllum heiminum, megum við koma og fá fiskibollur í dós á morgun? Við erum í Staðarskála, hlökkum til að sjá þig!“ Já, fiskibollur í dós matreiddar af afa voru töfrum líkastar. Það er að segja blanda af töfrum og sykri. Nóg af sykri.

Við krakkarnir höfum alltaf verið stolt af því þegar áttræður afi okkar renndi sér fimlega niður brekkur Hlíðarfjalls. Við fylgdum á eftir móð og másandi, því ekki var annað í boði, sama hvernig viðraði. Stundum varð rassinn blautur af vænni byltu og þá stóð ekki á afa að hlæja hátt og dátt af óförunum. Þá var staðið upp með bros á vör og haldið áfram.

Stundum voru litlir fingur og tær kaldar eftir fjallið. Þá nuddaði afi svo hressilega að við fengum sting í allan líkamann en okkur varð sannarlega hlýrra eftir á. Við vissum líka að eftir langan skíðadag með afa vorum við einu skrefi nær því að ná hinni sönnu mjúku og lipru Grenivíkurskíðasveiflu. Enda afi besti skíðakennarinn.

Afi var seigur í mörgu og kunni oft ráð sem aðrir bjuggu ekki yfir. Það fannst okkur krökkunum allavega þegar við hlupum með tárin í augunum en skælbrosandi til mömmu einni barnatönn fátækari eftir að afi hafði kippt henni úr á augabragði. Afa fannst mesta vitleysa að bíða ef tönnin var laus á annað borð og svo ætlaði hann bara aðeins að skoða, ekki snerta. Þessi kvöld vorum við mætt snemma í háttinn og biðum eftir tannálfinum full tilhlökkunar, allt afa að þakka.

Önnur kvöld var farið seinna í háttinn í bústaðnum yfir í heiði enda við í fríi. Afi passaði samt alltaf upp á að dagurinn væri ekki nýttur í vitleysu og mætti snemma.

Hann tók það sérstaklega að sér að vekja unglingana á heimilinu. Helst með smá hávaða og látum en líka með gleði og blíðu. Þegar vakningin var yfirstaðin settist hann niður og fékk sér morgunkaffi með sykri. Töluverðu af sykri. Þá fengum við að heyra sögur af bátum, skíðum, fjallaævintýrum og fjölskyldunni.

Það var nú ekki amalegt að eiga svona flottan afa. Afa sem var alltaf hjá okkur um áramót og afa sem rúntaði með okkur um Eyjafjörðinn þveran og endilangan. Ýmist fram á Þverá eða upp á Jaðar, út á Grenivík, niður á bryggju eða bara hvert sem honum datt í hug til að sýna okkur eitthvað merkilegt.

Á þessum ferðum kenndi afi okkur að lifa lífinu, horfa jákvætt fram á við og halda ótrauð áfram jafnvel þótt maður lendi stundum í slæmum byltum eins og á skíðunum.

Afi stóð við hlið okkar frá fyrsta degi. Þegar hann vissi að við værum að koma í heiminn steig hann upp í rauðu Carismuna sína og brunaði suður til að bjóða okkur velkomin. Honum fannst jú ekkert mál að keyra um landið sitt. Eitt sinn þegar við vorum farin að sakna afa minntumst við á að hann gæti jafnvel tekið strætó til Reykjavíkur ef hann væri hann þreyttur á öllum þessum akstri. Þá fussaði afi og var mættur daginn eftir í fantaformi. Þetta var jú ekkert mál.

Elsku afi. Í dag horfum við á eftir þér, keyra upp veginn í síðasta sinn, merktum ÁBÁ.

Við þökkum hlýhug og umhyggju. Elskum þig.

Þín afabörn,

Steinunn Glóey, Fanney Björg og Þórhallur Árni

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00