Fara í efni
Minningargreinar

Árni Björn Árnason

Elskulegur tengdafaðir minn kvaddi þennan heim þann 21. apríl sl. sáttur.

Allt frá því að leiðir okkar lágu saman fyrir um 30 árum vann hann hjá Slippnum á Akureyri sem verkefnastjóri. Mér var snemma ljóst að Árni Björn bjó yfir þeim hæfileikum að fá menn til að vinna með sér og að hann væri góður verkstjóri.

Hann var hreinskilinn og hafði sterkar skoðanir á því hvernig vinna ætti tiltekin verk en um leið fljótur að skipta um skoðun ef góð tillaga til úrbóta var lögð fram og ef eitthvað hefði mátti betur fara leiðbeindi hann í rétta átt. Árni Björn var nefnilega einn af þeim tjá sig helst ef þeir telja sig hafa eitthvað gott til málanna að leggja sem gæti orðið til lærdóms eða gagns. Hann var í senn traustur og hlýr en um leið vandvirkur og vildi að menn hefðu skilning á því sem verið var að vinna að.

Eftir að Árni Björn hætti að vinna um sjötugt viðhélt hann ástríðu sinni á bátum og bátasmíði. Lengi vel hélt hann áfram að mæta í hádeginu í Slippinn til að fá upplýsingar um hvaða skipum væri verið að breyta og bæta en byrjaði fljótlega að taka saman upplýsingar um alla báta sem smíðaðir voru í Eyjafirði. Þegar því verki var lokið var allt Norðurlandið undir og svo seinna allt landið. Það væri hending ein ef sá bátur hefur verið smíðaður hér á landi og þekkt væri til sem Árni Björn hefði ekki gert skil á vefnum sínum aba.is. Þar er ekki aðeins að finna upplýsingar um smíði og örlög einstakra báta heldur einnig skemmtilegar og fræðandi frásagnir þeim tengdar.

Þegar við fjölskyldan vorum fyrir norðan mætti Árni Björn alltaf snemma í kaffi og þá var farið yfir það sem var helst á baugi í samfélaginu, rifjaðar upp gamlar minningar eða sagðar sögur. Skemmtilegast var samt þegar Árni Björn sagði frá uppvaxtarárum sínum á Grenivík. Hann bjó yfir einstakri sagnagáfu og atburðir sem jafnvel áttu sér stað fyrir miðja síðustu öld, jafnvel úr seinni heimsstyrjöldinni, birtust manni ljóslifandi við frásögn hans.

Ég, Eyja og krakkarnir munum ekki aðeins sakna stundanna okkar fyrir norðan heldur allra símtalanna. Þó að umræðurnar snerust ekki um annað en fótbolta og golf, hversu góðir hans menn í Manchester United væru eða yrðu bráðlega, hvernig nýja golfsveiflan væri að virka og hvernig veðrið á Akureyri væri alltaf betra en spár gerðu ráð fyrir var alltaf gott að heyra í honum hljóðið. Maður skyldi jú muna að sólin kemur alltaf upp næsta dag og það sé óþarfi að mála skrattann á vegginn. Hann sæi bara um að koma sér þangað sjálfur ef svo bæri við.

Ég minnist tengdaföður míns með hlýju og þakklæti fyrir allar okkar dýrmætu stundir og minningar. Aldrei bar skugga á samskipti okkar og hann reyndist mér einstaklega vel alla hans ævi. Hann var líka einstakur faðir og milli Eyju minnar og hans var sterkur órjúfanlegur þráður. Hann stóð þétt með henni og hún með honum.

Börnin okkar minnast líka afa síns sem var stríðinn og skemmtilegur. Afa sem sagði sögur og bjó til fiskibollur í dós. Afa sem þótti vænt um fólkið sitt og stóð með sínum.

Hvíl í friði, elsku Árni Björn, og Guð blessi þig.

Höskuldur

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Ingibjörg Gústavsdóttir

Úlfar Bragason skrifar
19. ágúst 2024 | kl. 06:00