Fara í efni
Minningargreinar

Ágúst H. Guðmundsson

Hinsta kveðja

Í dag verður Ágúst Herbert Guðmundsson lagður til sinnar hinstu hvílu en hann lést í faðmi fjölskyldu sinnar 1. janúar síðastliðin aðeins 53 ára gamall. Ágúst greindist með hreyfitaugahrörnun, MND árið 2017 og dró sá illvígi sjúkdómur hann til dauða.

Ágúst, eða Gústi eins og hann gjarnan var kallaður fæddist á Patreksfirði 26. ágúst 1967. Ungur fluttist hann til Hafnarfjarðar en þaðan lá leið hans svo til Akureyrar í lok ágústmánaðar 1982 þá nýorðinn 15 ára gamall. Eitt af fyrstum verka Gústa eftir flutning til Akureyrar var að setja sig í samband við fólk til að tengjast körfuboltanum, sem var og er stundaður hjá Þór og þar með var Gústi orðin Þórsari.

Næstu 38 árin eða svo átti Íþróttafélagið Þór því láni að fagna að hafa notið krafta Gústa fyrst sem iðkanda og síðar sem þjálfara og stjórnarmanns. Gústi lét strax til sín taka þegar hann hóf iðkun körfubolta hjá Þór. Varð hann strax mjög duglegur að taka þátt í öllu sjálfboðastarfi s.s. fjáröflunum og öðru sem til féll, hann vissi að til þess að starfið gengi sem best þyrftu allir að leggjast á eitt. Þannig var Gústi ávallt til reiðu fyrir körfuboltann þá „göfugu íþrótt“ eins og hann sjálfur sagði gjarnan.

Snemma gat hann sér gott orð sem þjálfari og vann hann fjölmarga titla með yngri flokkum hjá Þór. Síðasti titilinn sem Gústi vann kom í apríl 2017 þegar 10. flokkur Þórs sigraði í Scania Cup sem er í raun óopinbert Norðurlandamót félagsliða í körfubolta. Á þessu sterka móti var sonur hans, Júlíus Orri leikmaður Þórs, valinn besti leikmaður mótsins (Scania Cup King).

Gústi náði einnig góðum árangri sem meistaraflokksþjálfari en hann þjálfaði Þór frá 1998-2001. Tímabilið 2000-2001 náði hann sínum besta árangri með meistaraflokk þegar hann fór með liðið í 8 liða úrslit. Þar varð liðið að játa sig sigrað gegn geysisterku liði Hauka sem vann rimmuna 2-1. Er þetta til þessa eini sigurleikur Þórs í átta liða úrslitum.

Sem þjálfari yngri flokka naut Gústi mikillar virðingar. Hann var kennari góður og kenndi skjólstæðingum sínum ekki bara fræði íþróttarinnar heldur mikilvægi þess að vera heiðarlegur innan vallar sem utan. „Til að njóta virðingar berðu virðingu fyrir andstæðingnum,“ sagði Gústi. Það eru orð að sönnu.

Þegar 10. flokkur Þórs tapaði bikarúrslitaleik 2017 voru þeir snöggir til að óska mótherjunum til hamingju, það þótti þeim vissulega sjálfsagður hlutur. En nokkrum dögum síðar skrifaði fyrirverandi knattspyrnumaður eftirfarandi á Twitter: „Stjarnan bikarmeistari í 10. flokki drengja í körfu. Heillaðist samt meira af drengskap Þórsara frá Akureyri í því hvernig þeir tóku tapinu“.

„Það er ekkert lið áskrifandi að titlum og þarna höfðu Stjörnumenn betur og það kom auðvitað ekkert annað til greina en að óska þeim til hamingju. Þeir unnu leikinn og eru vel að sigrinum komnir,“ sagði Gústi. Þannig var Gústi sanngjarn, heiðarlegur og réttsýnn, hann vildi að allir sínir iðkendur væru sjálfum sér og sínu félagi til sóma.

Eins og áður segir hafði Gústi einnig látið til sín taka sem stjórnarmaður bæði í aðalstjórn körfunnar og sem formaður unglingaráðs um árabil. Gústi var svo nýtekinn við sem formaður körfuknattleiksdeildar vorið 2017 þegar hann greindist með MND þá um sumarið og varð af þeim sökum að draga sig í hlé.

Þrátt fyrir að sjúkdómurinn hafi náð heljartökum á Gústa þá var hann áfram á hliðarlínunni, hann lét starf körfuknattleiksdeildar sig varða allt fram í andlátið.

Fyrir hin ýmsu störf í þágu íþróttarinnar hafði Gústa verið veittar ýmsar viðurkenningar t.d. gull- og silfurmerki Þórs og gullmerki Körfuknattleikssambands Íslands. Þá hafði Frístundaráð Akureyrar veitt honum heiðursviðurkenningu Frístundaráðs árið 2017 fyrir störf sín í þágu körfuboltans.

Þórsarar og körfuknattleikssamfélagið sér nú á eftir og syrgir ljúfan dreng sem hafði mikil áhrif hvar sem hann kom við, á hann var hlustað. Gústi hafði áhrif og um ókomin ár munum við njóta þeirra góðu verka sem hann kom að, og fyrir það lútum við höfði í þakkarskuld, eins og segir í texta Bjarna Hafþórs Helgasonar í 100 ára afmælislagi Þórs.

Um leið og Íþróttafélagið Þór þakkar Ágústi fyrir allt hans góða starf í þágu félagsins biðjum við almáttugan guð að gefa eftirlifandi eiginkonu hans, Guðrúnu Gísladóttur, börnum þeirra, Ásgerði Jönu, Júlíusi Orra og Berglindi Evu og nánustu fjölskyldu styrk og blessun á þessum erfiðu tímum.

Hver minning er sem dýrmæt perla.
Íþróttafélagið Þór

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01