Ágúst H. Guðmundsson
Elsku stóri bróðir okkar hefur kvatt okkur frá þessari jarðvist. Illvígur sjúkdómur MND bankaði uppá hjá honum fyrir fjórum árum og tróð sér inn í líf hans og fjölskyldu, hann tók við verkefninu eins og öllu öðru í lífinu, með jákvæðni, dugnaði, styrk og léttleika. Með ótrúlegum vilja og orku náði hann að vera sá sami jákvæði sprellikarl og hann var alltaf, barðist fyrir hverju mótlæti sem lífið færði honum en að lokum gaf hann körfuboltamerki um að leik væri lokið.
Eins og Ágúst vissi, þá erum við systur á því að hann er ekki farinn, einungis fallega hulstrið sem hann fékk afnot af. Hann gerði óspart grín af okkur systrum hvort sem var um andleg mál að ræða, list, tónlist eða tilfinningar. Á sinn hátt var hann sama sinnis, mikill tónlistamaður, elskaði fallega hluti, vandaði til allra verka, leið best í náttúrunni eða úti á sjó.
Ágúst bróðir var mikil fyrirmynd fyrir okkur eins og svo marga aðra. „Hvað myndi Ágúst gera?“, „Hvað ætli Ágúst segi?“ var ofarlega í huga okkar við minnstu pælingar. Við eigum margar góðar minningar saman, hann hafði afskaplega gaman af því að stríða okkur systrum en einnig reyndi hann sem stóri bróðir að fræða okkur um hins ýmsu mál, ættfræði, raforku, körfuboltamál og fleira sem við áttum erfitt með að meðtaka, að honum fannst. Hann var rosalega minnugur og gátum við alveg fram á síðasta dag sótt í þann banka. Hann var alltaf til staðar og sinnti hlutverkinu „stóri bróðir” mjög vel, áhugi hans og umhyggja til barna okkar var afskaplega fallegur og spurði hann alltaf með vissum bendingum, eftir að hann missti málið, um hvert barn fyrir sig, elskaði að heyra sögur af þeim og var mikið umhugað um að þau væru öll hamingjusöm. Í síðustu heimsókn okkar systra til hans, spurði hann okkur báðar hvort við værum hamingjusamar.
Efirminnileg er falleg sumarvika sem við áttum saman systkinin, í miðjum veikindum hans, en þá fengum við það skemmtilega hlutverk að vera hjá bróður okkar. Gönguferð í Jólahúsið, bílferð inn að virkjun, góðar spjallstundir og smá eðalnudd frá okkur gladdi hann og okkur. Reglulega sagði hann eins og áður að við værum ruglaðar og hafði alltaf gaman af. Við horfðum t.d. á Hangover og Ágúst hló svo mikið að öndurnargríman fór öll úr kerfi, en ekki séns að hann vildi eitthvað annað og alvarlegra. Á kvöldin lágum við systur uppi í rúmi og spjölluðum, gerðum jógaæfingar á meðan við héldum að hann væri sofnaður, en nei, hann var að hlusta og taka okkur upp á símann, skemmti sér vel – „Þið eruð ruglaðar“. Síðasta kvöldið spurði hann okkur hvort við ættum silkiblússur. „Farið saman og finnið ykkur vandaðar silkiblússur, pantið flug til Reykjavíkur, gistið á Melnum, ég borga.“ Ekta Bói.
Það er mikill missir fyrir okkur fjölskylduna að hafa hann ekki lengur hjá okkur en hann lifir í Júlíusi, Ásgerði Jönu og Berglindi. Hann lifir líka alltaf í Guðrúnu þar sem þau voru ótrúlega samstíga, hvort sem var í vinnu, áhugamálum eða glötuðum húmor þeirra beggja, sem hún mun því miður halda áfram með, en það verður ljúfsárt!
Elsku Bói, við erum hamingjusamar en eigum bara eftir að fara suður og kaupa blússurnar!
Ingveldur Guðmundsdóttir,
Ingibjörg Berglind Guðmundsdóttir