Fara í efni
Menning

Voluð, tröllriðin, vesæl og hrafnfundin

SÖFNIN OKKAR – 71

Frá Listasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega.

Jóna Hlíf
Land I / Land II
2022
Flauel og gylltur þráður

Jóna Hlíf útskrifaðist frá fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri 2005, lauk MFA-gráðu frá Glasgow School of Art í Skotlandi 2007 og MA-gráðu í listkennslu frá Listaháskóla Íslands 2012. Hún hefur m.a. haldið einkasýningar í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarborg og Listasafninu á Akureyri. Textaverk, tilraunir með efni og innsetningar eru kjarninn í myndrænni tjáningu hennar. Jóna Hlíf hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og eru verk eftir hana í eigu opinberra safna.

Í verkunum Land I og Land II vinnur Jóna Hlíf með kvæðið Volaða land eftir Matthías Jochumsson. Kvæði orti Matthías í ellefu erindum einn hafísaveturinn, harmi sleginn eftir að hafa þurft að jarða ekkil sem svalt í hel ásamt fjórum börnum sínum. Fyrsta erindið hljóðar svo:

Volaða land,
horsælu hérvistar slóðir,
húsgangsins trúfasta móðir,
volaða land!

Í verkunum hefur Jóna Hlíf dregið út úr erindunum nokkur af þeim orðum sem Matthías valdi Íslandi og saumað þau í djúpblátt flauel með gylltum þræði. Í Land II standa lýsingarnar í hvorugkyni, líkt og í kvæði Matthíasar: Hraunelda, hafísa, stórslysa og blóðrisa. En í Land I hefur hún þær í kvenkyni: Voluð, tröllriðin, vesæl og hrafnfundin. Þetta skapar spennu milli verkanna og skorar á áhorfandann að geta í eyðurnar og velta fyrir sér þessu skapstóra landi, sem oft á tíðum skelfur og skelfir í senn. Alveg eins nú, sem og á tímum Matthíasar.