Listakonan Emilie vefur þrívíða textílskúlptúra

Hvað er mögulegt að gera með textíl? Er hægt að brjóta origami úr textíl? Eru einhver takmörk? Þetta eru spurningar sem Emilie Palle Holm hefur spurt sjálfa sig og tekist á við í listsköpun sinni. Hún kemur frá Danmörku, býr í Kaupmannahöfn en er uppalin á litlum stað á Jótlandi sem heitir Lundø. Sigríður Örvarsdóttir safnstjóri Listasafnsins á Akureyri bauð henni að koma með textílverkin sín til Akureyrar, og nú er hún komin hingað í fyrsta skipti á ævinni. Blaðamaður Akureyri.net hitti Emilie á safninu, þar sem hún er að undirbúa sýninguna sína Brotinn vefur, sem verður opnuð á laugardaginn kemur.
Mér fannst gaman að heyra þegar einhver sagðist hafa haldið að þetta væri pappír, þegar verkin voru séð úr fjarlægð
„Þessi verk bera heitið Oriori. Ég vinn yfirleitt með vef, en allt hérna inni er ofið í stórum iðnaðarvefstól,“ segir Emilie. „Þetta byrjaði eiginlega með því að mig langaði til þess að kanna hvað ég gæti gert, hversu langt ég gæti komist með vefnað. Venjulega er það sem búið er til í vefstól flatt, tvívítt og kassalaga. Mig langaði að sjá hvort ég gæti ofið eitthvað þrívítt. Ekki ofið stórt stykki og klippt það niður og saumað saman, heldur eru þessi verk heil stykki sem ég vinn með.“
Þræðir, þræðir og fleiri þræðir. Mynd: RH
Emilie smellir verkin saman með hnöppum, og sumum þeirra getur hún snúið „úthverfum“ og þá eru þau allt öðruvísi. Mynd: RH
Þegar blaðamaður kom fyrst inn í rýmið, og skoðaði verkin, var hugurinn búinn að ákveða að Emilie væri með eitthvað inni í verkunum til þess að stífa, eða móta. Svo reyndist ekki vera, allt er vefnaður, allt er textíll. Hún sýnir hvernig hún getur tekið verkin í sundur og púslað þeim saman aftur, svolítið eins og harmonikku, eða jú – origami. Skjár verður uppi á sýningunni, þar sem Emilie mun sýna myndband þar sem gestir geta kynnst ferlinu og séð hana vinna með verkin sín.
Vill vekja forvitni um eiginleika textíls
„Það er mikil rannsóknarvinna að baki,“ segir Emilie. „Varðandi hvaða efni ég ætti að nota, hvernig virka þau og hvað hentar best. Ég gerði mikið af tilraunum, líka með pappír og fleira. Bjó til strúktúra sem ég svo endurskapaði með textíl. Það sem mig langaði að gera líka, var að búa til skúlptúra sem draga fólk til sín, vekja forvitni. Mig langar að fólk fái löngun til þess að knúsa sum verkin. Mér fannst gaman að heyra þegar einhver sagðist hafa haldið að þetta væri pappír, þegar verkin voru séð úr fjarlægð.“
„Ég hef engar tengingar til Íslands, og aldrei komið áður, þannig að það ég var mjög spennt og glöð að fá boð hingað,“ segir Emilie. „Náttúran heima í Danmörku er frekar óspennandi miðað við hérna, þannig að ég er mjög spennt að komast út að skoða mig vel um.“
Sýning Emilie verður opnuð á laugardaginn, 22. mars kl. 15.00. Listamannaspjall með Emilie verður kl. 15.45.
Listakonan, séð í gegnum eitt verka sinna. Mynd: RH
Instagram reikningur Emilie er góður staður til þess að kynnast listsköpun hennar betur.
Emilie Palle Holm (f. 1994) er með MA gráðu í textíl frá Háskólanum í Borås. Hún hefur unnið til fjölda viðurkenninga og verðlauna, þar á meðal hinna eftirsóttu Arts Threads í flokknum prjón/vefur 2023, sem skipulögð voru í samvinnu við tískumerkið Gucci. Einnig verðlaun menningarmálaráðuneytis á Evrópsku verðlaunahátíðinni í Belgíu 2024, fyrir nytjalist.
Upplýsingar af heimasíðu Listasafnsins á Akureyri.
Blaðamanni lék forvitni á að vita, hvernig hefði gengið að ferðast með verkin á milli landa. Textíllist getur greinilega verið praktískari en ýmis önnur, þar sem hún segist hafa komið öllu í þennan kassa. Enda leggjast verkin saman eins og origami! Mynd: RH