Fara í efni
Menning

Norðlenskir listamenn hafa frest til 9. apríl

Frá samsýningu norðlenskra listamanna 2023. Þemað var 'Afmæli'. Mynd: listak.is

Samsýning norðlenskra listamanna hefur verið sett upp annað hvert ár á Listasafninu á Akureyri síðan árið 2015. „Nú er því komið að sjötta tvíæringnum,“ segir Freyja Reynisdóttir, verkefnastjóri sýninga hjá Listasafninu. Norðlenskir listamenn sækja um að taka þátt í sýningunni, en fresturinn til umsóknar rennur út miðvikudaginn 9. apríl. 

Sérstök dómnefnd velur inn þau verk sem taka þátt í sýningunni, þegar umsóknir hafa borist. „Sýningin verður opnuð 5. júní og er ætlað að gefa innsýn í þá fjölbreyttu flóru listar sem tengist Norðurlandi og vekja umræður um stöðu norðlenskra listamanna. Í þriðja sinn erum við með þema fyrir sýninguna, sem að þessu sinni er Mitt rými. Þemað vísar í núverandi heimsástand sem einkennist m.a. af átökum, umhverfisvá og sviptingum í alþjóðastjórnmálum og því hefur sjaldan verið jafn mikilvægt að fólk finni eigið rými til íhugunar og sjálfskoðunar,“ segir Freyja.

„2021 var unnið með Takmarkanir sem vísun í Covid-19 faraldurinn og 2023 Afmæli í tilefni af 30 ára afmæli Listasafnsins það ár,“ segir Freyja. „Það er alltaf mikið tilhlökkunarefni þegar þessi sýning fer upp því hún er svo gott tækifæri fyrir norðlenska listamenn til að sýna hvað þeir eru að fást við hverju sinni. Ég hvet því myndlistarmenn, hönnuði, kvikmyndagerðarfólk, arkitekta og aðila annarra skapandi greina til að nýta tækifærið og sækja um. Allar upplýsingar má finna á heimasíðu Listasafnins, listak.is.“

 

Freyja Reynisdóttir, verkefnastjóri sýninga hjá Listasafninu á Akureyri. Mynd: listak.is