Hver var Halldóra? Af hverju Halldóruhagi?

SÖFNIN OKKAR – 66
Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _
Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.
Halldóra Bjarnadóttir var fædd 14. október 1873. Hún var skólastjóri Barnaskólans á Akureyri frá 1908, fyrsti formaður Sambands norðlenskra kvenna ásamt því að vera ritstjóri tímaritsins Hlínar.
Götur í nýjasta hverfi Akureyrar, Hagahverfi, eru kenndar við kunna, látna Akureyringa eins og áður hefur verið fjallað um á þessum vettvangi; fólk sem bæri heiður vegna starfa fyrir bæjarsamfélagið og hefði með frægð sinni og verkum auglýst nafn bæjarins, eins og nafnanefnd sveitarfélagsins lagði til á sínum tíma. Ein gatan er kennd við Halldóru Bjarnadóttur – Halldóruhagi.
Foreldrar Halldóru voru Bjarni Jónasson bóndi á Hofi í Vatnsdal og Björg Jónsdóttir. Þau skildu og fór faðir hennar til Vesturheims árið 1883. Halldóra fylgdi móður sinni og fluttu þær mæðgur til Reykjavíkur á heimili Jóns Árnasonar þjóðsagnaritara og frænda hennar.
Halldóra fékk ung áhuga á handavinnu og heimilisiðnaði og fór til náms í Noregi árið 1896 og lauk kennaraprófi þar árið 1899. Hún kom aftur til Íslands og kenndi við Barnaskólann í Reykjavík en sneri aftur til Noregs og starfaði þar við kennslu á árunum 1901 til 1908 m.a. í bænum Moss. Árið 1908 fluttist hún aftur til Íslands og gerðist skólastjóri Barnaskólans á Akureyri.
Halldóra leiddi framboðslista kvenna við bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri árið 1921 og náði kjöri. Hún sagði hins vegar af sér bæjarfulltrúastarfinu eftir einungis tveggja ára starf.
Halldóra flutti síðar til Reykjavíkur og varð stundakennari í handavinnu við Kennaraskóla Íslands og ráðunautur almennings í heimilisiðnaði frá 1922.
Árið 1937 fór hún til Vesturheims og stóð þar fyrir mikilli heimilisiðnaðarsýningu á vegum Vestur-Íslendinga. Árið 1946 stofnaði Halldóra Tóvinnuskólann á Svalbarði við Eyjafjörð og starfaði þar til ársins 1955. Hún stóð fyrir sýningum á heimilisiðnaði á Íslandi og erlendis og var ritstjóri ársritsins Hlín en það rit kom fyrst út árið 1917.
Árið 1955 flutti Halldóra á Héraðshælið á Blönduósi þar sem hún lést 28. nóvember 1981.
Halldóra hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1931, árið 1971 hlaut hún stórriddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu íslensk heimilisiðnaðar.
Á Héraðsskjalasafninu á Akureyri má, meðal annars, finna þessi bréf sem Halldóra skrifaði til vinkonu sinnar, Jósefínu Öfjort Stefánsdóttur sem var búsett í Danmörku. Bréfin gefa okkur örlitla sýn inn í hversdagsleika Halldóru, skemmtilegt smáatriði sem sjá má í þessum bréfum, þó að sjálf bréfin séu rituð með ritvél, þá handskrifar Halldóra nafnið sitt undir bæði bréfin.
Bréfin eru bæði skrifuð árið 1972 á Blönduósi.