Hugur og haf fléttast saman í nýrri sýningu

„Ég geng fjöruna oft, frá vinnustofunni minni í Hlíðunum og upp í Kópavog. Fjaran breytist á hverjum degi, hún er aldrei eins,“ segir Helga Páley Friðþjófsdóttir, myndlistarmaður. Hún er í óða önn að undirbúa og hengja upp málverkin sín á Listasafninu fyrir opnun á laugardaginn, á sýningunni 'Í fullri fjöru', en Helga Páley segir að í þetta skiptið hafi nafn sýningarinnar komið til hennar áður en verkin sjálf gerðu það.
Ég vinn líka mest út frá tilfinningu þegar ég er að mála, og stundum er flóð og stundum er fjara
„Ég sé sjóinn fyrir mér eins og hugann,“ segir Helga Páley. „Og allt sem lendir í sjónum velkist þar um; eins og allt sem við hugsum, velkist um í minninu. Svo er svo margt sem við munum ekki fullkomlega, þegar það rekur aftur á fjörurnar, en við munum kannski bara tilfinninguna, eða einhverja liti. Eitthvað órætt.“
„Það sem fer í sjóinn skolast til, það rúnnast og brotnar niður,“ segir Helga Páley. „Eins og minningar geta gert. Eftir stendur kannski brot af tilfinningu, stemningu, eins og þú sért að horfa ofan í vatn. Lifandi en órætt. Ég vinn líka mest út frá tilfinningu þegar ég er að mála, og stundum er flóð og stundum er fjara.“
Uppsetningin gengur vel. Mynd: RH
Málverk Helgu Páleyjar eru ennþá á gólfinu, og styðja sig við vegginn, á meðan skapari þeirra undirbýr rýmið með góðri aðstoð starfsfólks Listasafnsins. Þau eru abstrakt, mjúk, litrík og lifandi. „Ég málaði þessi verk sérstaklega fyrir þessa sýningu,“ segir Helga. „Þegar ég vinn að sýningum, finnst mér gott að vinna út frá einhverjum stað. Hvort sem hann er óræður eða ekki. Það er gott að vera innan einnhverra ramma, en það er eiginlega óvenjulegt hjá mér, að nafnið komi fyrst.“
„Hver sýning er í rauninni bara mengi, eða tímahylki þess sem ég dregst að hverju sinni,“ segir Helga Páley að lokum. „Nú er það hugur og haf, og ég er allt í einu hrifin af einhverjum lit og einhverjum formum og ég leyfi mér að elta það, sama hvaðan það kom. Eins og eitthvað sem fór í sjóinn og rak á land.“
Sýning Helgu Páleyjar verður opnuð á Listasafninu á morgun, laugardaginn 22. mars kl. 15.00. Listamannaspjall og leiðsögn með Helgu verður á dagskrá kl 16.15.
Helga Páley Friðþjófsdóttir (f. 1987) lauk BA-prófi frá Listaháskóla Íslands 2011 og er starfandi myndlistarmaður í Reykjavík. Eftir útskrift hefur hún haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hérlendis og erlendis. Verk hennar eru í eigu listasafna og einkaaðila víðs vegar í Evrópu.
Upplýsingar af vef Listasafnsins á Akureyri.