Stjórnklefi af Boeing 747-400 á Flugsafnið

SÖFNIN OKKAR – 69
Frá Flugsafni Íslands á Akureyri_ _ _
Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega.
Safngripur vikunnar er í stærra lagi að þessu sinni, því um er að ræða stjórnklefa af Boeing 747-400 þotu flugfélagsins Air Atlanta Icelandic.
Flugsafn Íslands tók á móti þessari rausnarlegu gjöf flugfélagsins til safnsins í nóvember síðastliðnum. Klefanum var komið fyrir til bráðabirgða í suðvesturhorni safnsins en í sumar verður honum komið betur fyrir, hann merktur félaginu og vinna hefst við að búa til sýningu um Air Atlanta Icelandic, sem Akureyringurinn Arngrímur B. Jóhannsson og Þóra Guðmundsdóttir stofnuðu árið 1986.
Síðar seldu þau félagið og er það nú í eigu m.a. Hannesar Hilmarssonar, Geirs Vals Ágústssonar og Baldvins Hermannssonar en sá síðastnefndi er forstjóri félagsins og að sjálfsögðu Akureyringur.
Davíð Jóhannsson, Guðmund Hilmarsson, Snorri Guðvarðsson og Bjarki Viðar Hjaltason. Til gamans má nefna að Guðmundur flaug Boeing 747 flugvélum Cargolux yfir 16.500 tíma á farsælum ferli sínum sem flugstjóri.
Stjórnklefinn sem kominn er á Flugsafnið er af Boeing 747-400 þotunni TF-AAH. Samkvæmt upplýsingum frá Air Atlanta var flugvélin smíðuð árið 2002 og komst í eigu félagsins árið 2014. Hún var leigð Saudi Arabian Airlines, en flugfélögin tvö hafa átt farsælt samstarf í yfir 30 ár. Þegar flugvélinni var lagt í mars 2021 hafði henni verið flogið samtals 59.267 klukkustundir og átti 8.181 flugtak og lendingar.
Boeing 747 vélin hefur af mörgum verið kölluð drottning háloftanna - „Queen of the skies“ - og jafnan talin ein fallegasta farþegaþota sem framleidd hefur verið. Hún er engin smásmíði; yfir 70 metrar á lengd og vænghafið spannar tæpa 65 metra. Flugfélagið Atlanta ehf. er fjórði stærsti notandi Boeing 747 í heiminum á eftir Atlas Air, Japan Airlines og British Airways en á undan stórum alþjóðlegum félögum eins og Singapore Airlines, United Airlines og Lufthansa.
Flugstjórnarklefinn hefur nú verið málaður og bíður þess að vera merktur flugfélaginu og komið fyrir á endanlegum stað í safninu.
Gestum safnsins er hleypt inn í stjórnklefann og þeim leyft að setjast í sætin og taka í stýrin. Er það einlæg von Air Atlanta og Flugsafnsins að gestir kunni að meta þá viðleitni til að auka upplifun gesta og e.t.v. glæða áhuga þeirra enn frekar á flugi, sem og að þeir gangi vel um stjórnklefann þannig að hægt sé að halda aðgengi að honum opnu.
Flugsafnið verður opið alla páskana kl. 13.00-16.00 og er fólk hvatt til að heimsækja safnið og berja gripinn augum.
Í nóvember kom vaskur hópur iðkenda í Skíðafélagi Akureyrar og þreif klefann og bónaði í fjáröflunarskyni fyrir félagið. Síðastliðnar vikur hafa hollvinir safnsins síðan undirbúið stjórnklefann fyrir málningarvinnu og nú hefur verið lokið við að mála hann undir styrkri stjórn Snorra Guðvarðssonar málarameistara og hollvinar safnsins.
Samskip sáu um flutning stjórnklefans frá Bretlandi til Íslands og Kranaþjónusta Norðurlands sá um að koma honum inn fyrir dyr safnsins. Hér má sjá safnstjórann standa úti í stórhríðinni eftir að hafa lokið við að moka af stjórnklefanum svo hægt væri að losa hann af fletinu og hífa hann inn.