Fara í efni
Menning

Svala Hrönn bakar með Evu og prjónar af ást

AF BÓKUM – 8

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.

Í dag skrifar Svala Hrönn Sveinsdóttir_ _ _

Mig langar að mæla með tveimur bókum, sem sameina tvö af mínum helstu áhugamálum, bakstur og handavinnu.

Þetta eru bækurnar Bakað með Evu eftir Evu Laufey Kjaran Hermannsdóttur og Prjónað af ást eftir Lene Holme Samsoe.
 
Bókina Bakað með Evu fékk ég í jólagjöf árið 2021, og ég held að ég hafi bakað nánast hverja einustu uppskrift upp úr henni enda hver annarri betri! Uppskriftirnar eru flestar frekar einfaldar, og það skemmir ekki fyrir að oft eru í þeim fá innihaldsefni sem ég á alltaf til í búrinu. Í bókinni eru þó nokkrar „gamlar“ uppskriftir, uppskriftir af kökum og brauði sem ég ólst upp við, og nýt þess nú að baka með mínum dætrum. Þá er líka töluvert af „barnvænum“ uppskriftum í bókinni og á mínu heimili eru jógúrtkökurnar vinsælastar, sérstaklega þar sem börnin geta tekið fullan þátt í þeim bakstri! Mæli jafnvel með að tvöfalda uppskriftina, svo góð er hún! Einnig er uppskrift af möndluköku sem rennur ljúflega niður og eplaköku með saltaðri karamellusósu sem svíkur engan. Ég mæli mikið með uppskriftunum hennar Evu, fyrir saumaklúbbinn, barnaafmælið, eða einfaldlega bara sunnudagskaffið!
 
 
Bókina Prjónað af ást eignaðist ég fljótlega eftir að hún kom út, en Lene Holme er danskur hönnuður í uppáhaldi og hefur hún gefið út margar fallegar prjónabækur. Bókin inniheldur fjölmargar uppskriftir af fallegum prjónaflíkum sem passa börnum frá fæðingu upp að tíu ára aldri. Uppskriftirnar henta bæði byrjendum og lengra komnum og inniheldur m.a. mína uppáhalds uppskrift, peysuna Dalíu, sem ég hef prjónað oftar en ég hef tölu á. Í bókinni má einnig finna uppskriftir af teppum fyrir þau allra minnstu, dásamlegum heimferðarsettum og fallegum húfum sem jafnvel er hægt er að nýta garnafganga í (og hver er ekki til í að nýta garnafganga?!) Bókin er vegleg og hana prýða fallegar myndir af börnum í prjónafötum. Ég mæli með henni fyrir öll þau sem hafa áhuga á fallegum og skemmtilegum prjónauppskriftum.