Slepptu því aldrei að lesa Kazuo Ishiguro

AF BÓKUM – 15
Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
Í dag skrifar Reynir Elías Einarsson_ _ _
Kazuo Ishiguro er minn eftirlætis rithöfundur og er því ekki úr vegi að ég mæli með bók eftir hann og ég reyni að gera það hér án þess að gefa of mikið upp um söguþráð bókarinnar því þetta er bók sem getur komið manni á óvart og hver hefur ekki gaman af því? Ishiguru fæddist í Japan, en hefur búið í Englandi frá því í barnæsku. Hann er þekktastur fyrir bókina Dreggjar dagsins og hlaut hann Bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2017.
Mín eftirlætis bók Ishiguru er Never let me go og hefur bókin komið út í íslenskri þýðingu, Slepptu mér aldrei. Þetta er ein af einungis tveim vísindaskáldsögum höfundarins, en fyrst og fremst er þetta saga sem fjallar um mennsku í heimi þar sem hún er hverfandi.
Kathy H., aðalpersóna bókarinnar, rifjar upp æsku sína á Hailsham, enskum heimavistarskóla þar sem nemendum var talin trú um að þeir væru einstakir, en hvort það er yfirhöfuð rétt fá lesendur ekki að vita fyrr en á líður. Fjallað er um siðferðis- og samfélagsleg álitamál í heimi þar sem minnihlutahópar eru mótaðir með ákveðið hlutverk í huga. Okkur finnst kannski ekki tímabært að gefa þessum álitamálum gaum í dag, en framtíðin er nær en okkur grunar. Einnig er auðvelt að spegla aðstæður í þessum heimi bókarinnar við samfélag okkar í dag og þá þöggun og innrætingu sem minnihlutahópar verða oft fyrir, þar sem staða þeirra er réttlætt sem eðlileg eða jafnvel nauðsynleg því engir aðrir valkostir koma til greina.
Nóbelsverðlaun Ishiguru komu augljóslega ekki úr neinum serjóspakka því bókin er frábærlega vel skrifuð. Hún vekur lesandann til umhugsunar um mannréttindi og það hvað það þýðir að vera manneskja. Hún vekur reiði vegna hlutskiptis aðalpersónanna, en líka vegna þess hversu sáttar þær eru við hlutskipti sitt. Samfélagið sem þær búa í hefur innrætt þeim trú á að hlutverk þeirra sé óumflýjanlegt og jafnvel siðferðilega rétt svo að þær gera lítið til að bæta hag sinn. Þetta er ein af fáum bókum sem ég gat bókstaflega ekki lagt frá mér og þegar ég hafði lokið við hana fletti ég strax aftur á blaðsíðu eitt og byrjaði upp á nýtt.