Menning
Langaði oft að taka utan um litlu Elísabetu
18.03.2025 kl. 06:00

AF BÓKUM – 18
Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
Í dag skrifar Svala Hrönn Sveinsdóttir_ _ _
Mig langar að mæla með bók eftir Elísabetu Jökulsdóttur. Elísabet hefur sent frá sér fjölmargar bækur en ég er bara nýbúin að ,,uppgötva” hana og hef því bara lesið þær bækur sem hún hefur skrifað á síðustu fimm árum. Ég ætla að taka fyrir bókina Límonaði frá Díafani sem er nýjasta bók hennar og kom út fyrir síðustu jól.
Bókin Límonaði frá Díafani er falleg könnunarferð um bernsku Elísabetar og segir frá því þegar hún ferðaðist með foreldrum sínum og tveimur yngri bræðrum til Grikklands, þá átta ára gömul. Grikklandsförin var svo sannarlega ævintýraleg en hún komst svo að því seinna að foreldar hennar voru að reyna, með þessari ferð, að bjarga hjónabandinu. Elísabet lýsir skilnaði foreldra sinna sem heimsendi en Grikklandi sem lífsvon og gimsteini bernskunnar og þessi fáu orð segja einhvernveginn allt sem segja þarf um þetta tvennt. Tuttugu árum síðar ferðast Elísabet aftur til Grikklands. Hún fer á sömu staðina og hún gerði sem barn, rifjar upp minningar, syrgir föður sinn og lýsir loks ferðinni til Díafani sem listaverki, sem mér finnst eiga mjög vel við.
Bókin er rík af gleði, húmor og sakleysi bernskunnar, en líka sorg og geðveiki og oftar en ekki langaði mig að taka utan um litlu Elísabetu við lesturinn.
Persónu- og umhverfislýsingar í bókinni eru svo draumkenndar, ljúfar og lýsandi að mér fannst ég fljóta eða jafnvel svífa í gegnum hana. Ég sá bæði fjölskylduna og staðina sem þau heimsóttu, svo ljóslifandi fyrir mér að það var rétt eins og ég væri sjálf stödd með átta ára Elísabetu í Grikklandi, að borða dísætar mandarínur af trjánum.
Þetta finnst mér eiga við fleiri bækur Elísabetar, eins og t.d. Saknaðarilm. Mér finnst ég stíga inn í bókina í byrjun og upplifa með persónunum allt sem ég les um, og í lok bókarinnar stíg ég svo út, þó mig langi helst ekki að fara. Elísabet er snillingur í að draga upp lifandi myndir með textanum sem hún skrifar og sameinar með því, bæði rithöfundinn og listakonuna sem hún er. Það eru ekki margir höfundar sem hrífa mig svona með sér, og þó ég hafi ekki skrifað undir meðmælendalistann þegar hún bauð sig fram til forseta Íslands árið 2016, þá er hún á góðri leið með að verða uppáhalds rithöfundurinn minn.