Fara í efni
Menning

Aldrei nema ... Mælir með þríleik Sveinbjargar

AF BÓKUM – 14

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.

Í dag skrifar Eydís Stefanía Kristjánsdóttir_ _ _

Ég mæli með þríleiknum Aldrei nema eftir Sveinbjörgu Sveinbjörnsdóttur.
 
Fyrsta bókin heitir Aldrei nema kona og fjallar í fyrstu um Guðrúnu Gísladóttur og síðar um dóttur hennar Steinunni Oddsdóttur. Þetta eru átakanlegar sögur um þrautseigju fátækra kvenna á erfiðum tímum. Það er ótrúlegt að lesa og setja sig í spor kvenna frá árunum 1759-1869 og sjá um leið hversu ótrúlega gott við höfum það í dag.
 
Þetta er sorgleg saga sem gerir mann reiðan í ljósi þess hversu lítil réttindi konur höfðu á þessum tíma. Þeim var hent á milli bæja og þær látnar vinna í allskonar aðstæðum. Þær töldust heppnar ef þær fyndu sér mann og gátu farið að búa. Lífið varð þó ekkert auðveldara því erfitt var að reka býli. Veðrið var oft vont og mikið frost sem hafði áhrif á heyskap, skip áttu erfitt með að leggja að landi vegna hafíss og því matur oft af skornum skammti, bæði fyrir fólk og skepnur. Konurnar eignuðust mörg börn en meiri hlutinn dó eða þurfti að fara í fóstur þar sem móðirin gat ekki séð fyrir þeim.
 
 
Bók númer tvö, Aldrei nema vinnukona, fjallar um næst yngstu dóttur Steinunnar, hana Þuríði Guðmundsdóttur. Hún ákveður það ung að árum, eftir að hafa upplifað marga barns- og sængurkvennadauða, að hún ætlaði aldrei að eignast mann né börn. Í bókinni er skipt á milli þess að fjalla um för Þuríðar til Vesturheims og árin sem liðu uns hún fór um borð í skipið. Þuríður fór með elstu hálfsystur sinni Ingibjörgu og Magnúsi syni hennar. Þau höfðu það ágætt um borð miðað við fyrrum vesturheimsfara. Þegar þau koma að landi er Þuríður nú frjáls, ekki lengur vinnukona.
 

Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir rithöfundur. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Þriðja bókin heitir einmitt Aldrei aftur vinnukona og fjallar um líf Þuríðar eftir að hún flytur út. Lífið er erfitt á köflum en ekki eins erfitt og heima á Íslandi. Sumrin eru lengri, hitinn hærri og Þuríður er frjáls ferða sinni. Þuríður nær að lokum að eignast land með bróður sínum og börnum hans tveim. Þuríður giftist aldrei og eignast ekki börn en tekur að sér að fóstra ungan norskan dreng.
 
Ég get viðurkennt það að erfitt er að fylgjast almennilega með öllum þeim sögupersónum sem koma fyrir í bókunum. Fólkið eignast svo mörg börn og sumir með mörgum konum eða mönnum þannig að nöfnin fara stundum öll í hrærigraut í hausnum á manni! Þá er gott að fremst eða aftast í bókunum eru ættartré eða smá frásögn um aðalpersónurnar.
 
Ég hef lúmskt gaman að því að lesa um fyrri tíma og mæli með þessum bókum fyrir þá sem deila þeim áhuga með mér.
 
Aðrar bækur sem fjalla um lífið í gamla daga og ég get mælt með eru bækurnar Valskan og Þegar sannleikurinn sefur eftir Nönnu Rögnvaldardóttur.