Hrönn spyr: Viltu dýfa tá í fantasíubókmenntir?

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
Í dag skrifar Hrönn Soffíu Björgvinsdóttir_ _ _
Þegar ég var yngri elskaði ég fantasíubækur eins og Ísfólkið, Harry Potter og Hungurleikana – rómantík, galdrar og andspyrna = hin heilaga þrenning.
Eftir að ég fullorðnaðist lagði ég þess háttar bækur á hilluna og einbeitti mér að því sem einhverjir vilja meina að séu „alvöru bókmenntir“.
Fyrir rúmu ári síðan tók ég upp mína fyrstu fantasíubók í 15 ár... og þá var ekki aftur snúið! Í dag eru um helmingur allra bóka sem ég les fantasíur (eða rómantasíur) en þennan viðsnúning í lesáhuga má að miklu leyti rekja til A Court of Thornes and Roses seríunnar, gjarnan kölluð ACOTAR, eftir Sarah J. Maas.
Bókaflokkurinn fjallar um Feyre, unga konu sem býr við mikla fátækt. Dagar hennar einkennast af veiðiferðum um skóginn svo fjölskylda hennar fái eitthvað að borða. Heimur Feyre er ansi nöturlegur og ekki síst afþví að yfir mannfólkinu vofir ógn um álfa, eða fae, í norðri sem þekktir eru fyrir mikla grimmd.
Í einni af veiðiferðum sínum drepur hún úlf sem í ljós kemur að er hamskiptingur úr álfheimum – viðurlögin eru þau að hún er tekin sem fangi og færð norður yfir vegginn sem aðskilur landsvæði manna og álfa, Prythian.
Prythian er gjörólíkt því sem Feyre bjóst við og smátt og smátt kemst hún að því að álfarnir eru ekki endilega þau skrímsli sem henni var kennt að hræðast og hata.
Fyrsta bókin er augljóslega innblásin af ævintýrinu um Fríðu og Dýrið en sagan tekur mjög óvænta stefnu í annarri bók og serían litast af andspyrnu, stríði og pólitískum launráðum í bland við kryddaða rómantík.
Bækurnar virðast eiga sérstaklega upp á pallborðið hjá konum á þrítugs og fertugsaldri. Mín kenning er sú að það sé vegna þess hve aðalkvenpersónan er sterk og sjálfstæð, en þó ekki síst vegna þess að aðalkarlpersónan er ekki prinsinn á hvíta hestinum sem kemur og bjargar henni – heldur er hann hennar helsti stuðningsmaður og hefur fulla trú á því að hún bjargi sér sjálf. Er það ekki það sem við viljum allar? Maka sem hvetur okkur áfram og stendur við bakið á okkur?
Svona bókmenntir eru um fram allt kærkominn veruleikaflótti og því hvet ég öll sem vilja taka sér stundarhlé frá heimsmálunum, heimilisrekstri og þriðju vaktinni – að sökkva sér í djúsí fantasíuheim og koma endurnærð til baka!
A Court of Thornes and Roses er tilvalin byrjendabók fyrir þau vilja prófa að dýfa tánni í heim fantasíubókmenntanna, þið verðið vonandi ekki svikin! Bækurnar eru fimm talsins en að mínu mati eru bækur 2, 3 og 5 bestar. Ég líkt og aðrir aðdáendur bíð spennt eftir sjöttu bókinni sem er væntanleg innan tveggja ára.