Fara í efni
Menning

Híbýli vindanna og Lífsins tré Böðvars

AF BÓKUM – 19
 

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.

Í dag skrifar Hólmkell Hreinsson_ _ _

Vesturfarasögur Böðvars Guðmundssonar

Undanfarnar vikur hefur samband Kanada og Bandaríkjanna verið mjög í brennidepli en vinskapur þessara þjóða hefur beðið verulega hnekki eftir að nýr forseti tók við völdum í Bandaríkjunum. Samband okkar Íslendinga við þessar þjóðir er nokkuð ólíkt, en í Kanada búa fjölmargir afkomendur Íslendinga sem fluttu vestur um haf á þarsíðustu öld í leit að lífsbjörg og betra lífi eftir harðindi og náttúruhamfarir hér á „gamla landinu“. Um tíma var talað um það hjá stjórnvöldum í Kanada að Íslendingar fengju að stofna eigin nýlendu og hafa nokkra sjálfsstjórn en af því varð nú ekki.

Að mínu mati hafa fáir gert þessum umbrotatímum í sögu okkar betri skil en Böðvar Guðmundsson í bókum sínum „Híbýli vindanna“ og „Lífsins tré“. Persónur eru skáldaðar og allt fært í stílinn en þar sem sagan er sögð með augum þess fólks, þá verða atburðir og manneskjur ljóslifandi. Að baki bókanna liggur mjög mikil vinna hjá Böðvari en hann safnaði bréfum Vestur- Íslendinga, ritstýrði, og gaf út í þremur bindum sem í sjálfu sér má telja stórvirki. Fyrir vikið eru persónur, tungutak og atburðir svo sannfærandi. Við fáum að fylgjast með erfiðleikum, fátækt og vonleysi hér heima og svo hvernig fyrirheitna landið reynist vera allskonar og þar skiptast á skin og skúrir eins og gengur, þó svo að engin eldspúandi fjöll séu til að drepa búsmalann og eyða túnum og engjum getur náttúran verið ekki síður óblíð þar vestra og endalausar slétturnar í Ameríku framandi í meira lagi. Ólafur Fíólín og hans fólk eru leiðsögumenn okkar í gegnum þessa miklu og merku atburði í sögu okkar Íslendinga, bæði hér og þar.

Saga vesturfaranna sem Böðvar lýsir er ekki síður áhugaverð en þeirra sem Vilhelm Moberg sagði Svíum og frásagnargáfan og orðsnilldin er Böðvari í blóð borin svo það að lesa textann er dásemd í sjálfu sér er enda fékk „Lífsins tré“ íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1996. Ekki spillir heldur fyrir hversu áhugavert viðfangsefnið er. Við Austur- Íslendingar höfum kannski ekki sýnt frændfólkinu okkar þar vestra tilhlýðilegan áhuga og ræktarsemi, því þau hafa svo sannarlega gert það og það er ógleymanlegt hverjum þeim sem heimsækir Íslendingabyggðirnar í Manitoba að upplifa áhugann og hlýjuna sem stafar frá þessu góða fólki vestur þar. Einnig tala þau sérstaka útgáfu af íslensku sem er að mínu viti afskaplega áhugaverð.

Mér þykir því rétt að hvetja alla til að lesa bækurnar sem oft eru kallaðar Vesturfarasögurnar eftir Böðvar Guðmundsson, það væri mikill missir fyrir okkur öll ef þær féllu í gleymskunnar dá. Síðan er upplagt að hugsa hlýlega til frændfólks okkar þar vestra og vona að þeim vegni vel á óvissum tímum.

Fyrst ég er kominn af stað að mæla með bókum Böðvars get ég ekki annað en bætt einni við sem er af allt öðru sauðahúsi. Það er bókin „Sögur úr Síðunni: þrettán myndir úr gleymsku“ sem hefur að geyma smásögur eða minningarbrot úr æsku Böðvars í Hvítársíðu í Borgarfirði. Þar lýsir hann sveitungum sínum og þeim atburðum sem upp úr standa í sveitinni og ég held að ég hafi aldrei lesið eins frábærlega fyndnar og skemmtilegar lýsingar á bændum og búaliði. Svo eru sögurnar barmafullar af þeirri mennsku og hlýju sem einkenna bæði skáldið og verk hans.