Fara í efni
Menning

Ekki til á bókasöfnum og fæst líklega hvergi

AF BÓKUM – 23

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.

Í dag skrifar Þorsteinn Gunnar Jónsson_ _ _

„Þú finnur aldrei hugarró fyrr en þú hlustar á hjartað þitt“
(You'll never find peace of mind until you listen to your heart)
 
Mögulega er það illa gert af mér að minnast á bók sem erfitt getur verið að finna á netinu núna og er ekki til á neinum bókasöfnum. En ég keypti hana á sínum tíma á netinu og hún er eiginlega alltaf hjá mér. Þetta er bókin Words eftir George Michael, sem kom út árið 2022 og er merkt sem önnur útgáfa. Þarna er hægt að finna nær alla lagatexta eftir goðið mitt George Michael, sem heitir í raun Georgios Kyriacos Panayiotou.
 

Textunum er raðað upp eftir stafrófsröð lagaheita og þrátt fyrir að ég geti sungið textana án þess að glugga í eitthvað, þá finnst mér svo gott að hafa bókina alltaf hjá mér. Þessi bókameðmæli eru skrifuð úti í Póllandi og bókin er auðvitað með mér þar.

Þetta er því ekki bók með rafmagnaðri spennu þar sem allt kemur í ljós í lokin, heldur einfaldlega bók með lagatextum, fullum af ást, sorg og hlýju. Og smá skemmtun auðvitað!

George Michael var margverðlaunaður og -tilnefndur fyrir tónlistina sína. Textarnir hans vöktu líka athygli því þrátt fyrir ungan aldur (bara um tvítugt) gat hann samið smellna texta í lögum eins og „Everything she wants“ með Wham! sem margir höfðu talið að væri saminn af mun eldri og lífsreyndari einstaklingi.

Og hér eru þessir textar hans samankomnir í eina litla bók upp á 144 blaðsíður. Algjör demantur þessi bók. Tónlist George Michael hefur í gegnum tíðina hjálpað mér mikið og flest, ef ekki öll, árin er hann mest spilaði listamaðurinn hjá mér. En að hafa textana á fallegu prenti fyrir framan sig og lesa þá ... það er svo yndisleg tilfinning.

Fyrirsögnin er úr einu af mínum allra mestu uppáhaldslögum með George: „Kissing a fool.“ Sjálfur segir hann lagið vera um samband sem hann var í og sá aðili hafi ekki geta höndlað þá pressu að vera með George Michael. Það sem ég sé í textanum er einstaklingur sem sér svolítið eftir því að hafa eytt tíma og ást í einhvern ... án þess að hafa fengið það til baka.

En svo það sé skjalfest, þá er uppáhaldslagið mitt og besta lag allra tíma „A different corner.“ Textinn er í bókinni Words.