Fara í efni
Menning

Færðu Amtsbókasafninu 40 úkraínskar bækur

Falleg bókagjöf! Frá vinstri: Aija Burdikova, Lesia Moskalenko og Andrii Gladii. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Amtsbókasafnið fékk 40 úkraínskar bækur að gjöf á fimmtudaginn var, á þjóðhátíðardegi Úkraínu.

Það voru Andrii Gladii og Lesia Moskelenko, sem bæði eru frá Úkraínu en búa á Akureyri, sem afhentu bækurnar. Þær eru gjöf frá Andrii, Lesiu og Nataliu Kravtchouk, sem einnig er frá Úkraínu en hefur lengi verið búsett á Akureyri.

Aija Burdikova starfsmaður bókasafnsins veitti gjöfinni viðtöku. Hún sér m.a. um öll verkefni á safninu sem snúa að fjölmenningu.

„Við erum mjög ánægð að Lesia og Andrii höfðu frumkvæði að því að við fengum þessar bækur. Það er ekki auðvelt fyrir okkur að panta bara eitthvað því við vitum ekki hvað fólk kann að hafa mestan áhuga á,“ sagði Burdikova við Akureyri.net.

„Þau lögðu mikla vinnu í að velja og panta bækur og lögðu líka út í kostnað. Þau borguðu allar bækurnar. Við hér á safninu erum mjög þakklát, og við erum stolt að gefa haldið upp á þjóðhátíðardaginn með þeim hér á safninu.“

Flestar bækurnar eru á úkraínsku en fáeinar á ensku. Þarna er að finna bækur af ýmsu tagi, bæði fyrir börn og fullorðna, meðal annars allt Harry Potter safnið á úkraínsku.