Fara í efni
Íþróttir

Æfði í hálfan mánuð og sló svo 18 ára Íslandsmet

Kristján Hreinsson stekkur hér létt og lipurlega yfir rána og setur Íslandsmet í norska bænum Alta í júlí árið 1983. Mynd: Skapti Hallgrímsson

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XXXIV

Kristján Hreinsson, 18 ára bóndasonur frá Hríshóli í Eyjafirði, sló hressilega í gegn í júlí árið 1983 þegar hann bætti 18 ára gamalt Íslandsmet í hástökki. 

Íslandsmet ÍR-ingsins Jóns Þ. Ólafssonar (2,10 m) hafði staðið síðan 1965 – í 18 ár, einn mánuð og 24 daga, þegar Kristján stökk 2,11 metra í Kalott-keppninni sem fram fór í bænum Alta í norður Noregi. Kalott var landskeppni sem fram fór um árabil þar sem andstæðingar Íslands voru íbúar norðurhéraða Noregs, Svíþjóðar og Finnlands og var miðað við heimskautsbaug, en það er önnur saga.

Sá sem þetta skrifar fylgdist með mótinu í Alta fyrir Morgunblaðið og leyfði sér að kalla Kristján kraftaverkamann eftir að hann bætti metið. Það var nefnilega lyginni líkast að honum tækist það í ljósi sögunnar.

„Ég þori nú varla að segja hvenær ég byrjaði að æfa hástökkið – það er nefnilega ekki nema hálfur mánuður síðan,“ sagði Kristján í Morgunblaðinu. „Ég hef aldrei æft neitt fyrir alvöru – ég hef svona verið að gutla í hástökkinu undanfarin ár.“ Hann stökk fyrst fjórum árum áður og fór þá 1,65 m.

„Ég hafði sett stefnuna á 2,10 metra í sumar, en þetta kom mér mjög á óvart að ég skyldi ná Íslandsmetinu nú,“ sagði hann í Alta.

Kristján stökk í fyrsta skipti yfir tvo metra – 2,03 m – á Meistaramóti Íslands á Laugardalsvelli hálfum mánuði fyrir keppnina í Alta. Að mótinu í Laugardal loknu kvaðst hann í raun hafa byrjað æfa, eftir prógrammi sem hann fékk hjá Jóni Sævari Þórðarsyni, þjálfara UMSE!

Met Kristjáns varð ekki nema ársgamalt. Unnar Vilhjálmsson úr UÍA bætti það á Landsmóti Ungmennafélags Íslands í Keflavík árið eftir. Stökk þá 2,12 m, einu ári og fimm dögum eftir að Kristján setti metið í Noregi. Unnar hefur lengi verið búsettur á Akureyri, er íþróttakennari við MA og þjálfari hjá Ungmennafélagi Akureyrar.

Íslandsmetið í hástökki er nú 2,25 m og er komið til ára sinna. ÍR-ingurinn Einar Karl Hjartarsson setti metið árið 2001.