Stórskyttan Anna Gréta Halldórsdóttir

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 67
Anna Gréta Halldórsdóttir er ein mesta stórskytta sem leikið hefur með akureyrsku kvennaliði í handbolta. Stelpurnar í KA/Þór tóku í dag við bikar fyrir sigur í næst efstu deild Íslandsmótsins í vetur og því er upplagt er gamla íþróttamyndin þessa helgina sé af Önnu Grétu, þar sem hún þrumar á markið í Skemmunni – gömlu íþróttaskemmunni á Oddeyri.
Myndin er tekin laugardaginn 4. febrúar árið 1978 þegar Þór tapaði fyrir Íslandsmeisturum Fram, 15:12, í efstu deild Íslandsmótsins, sem hét þá einfaldlega 1. deild. Anna Gréta var markahæst í Þórsliðinu í leiknum, sem var nánast regla frekar en undantekning á þessum árum. Hún gerði 5 mörk gegn Fram og var besti Þórsarinn ásamt Auði Dúadóttur markverði, en þær tvær voru gjarnan í aðalhlutverki á sinni tíð. Þórsarinn í fjarska er Soffía Hreinsdóttir, örvhent skytta, sem gerði 4 mörk þennan dag.
Þórsliðið sigraði í 2. deild vorið 1976 – eins og sjá má á úrklippunni úr Mogganum hér að neðan – og lék síðan í 1. deildinni þrjá vetur í röð.
Anna Gréta var ekki við eina fjölina felld á íþróttasviðinu. Hún lék einnig körfubolta og varð Íslandsmeistari með Þór á þeim vettvangi árið 1969. Ekki nóg með það; þegar fyrsta kvennalandslið Íslands í körfubolta var valið í mars 1973, fyrir Norðurlandamót sem fram fór í Osló í apríl, voru fjórir Þórsarar í leikmannahópnum, þar á meðal Anna Gréta Halldórsdóttir. Hinar voru Friðný Jóhannesdóttir, einn Íslandsmeistaranna frá 1969, Guðný Jónsdóttir og Þóra Þóroddsdóttir. Þegar til kom gat Anna Gréta reyndar ekki farið utan með landsliðinu, en hinir þrír Þórsararnir tóku þátt í NM í Osló.
- Eiginmaður Önnu Grétu, Aðalsteinn Sigurgeirsson, var einnig kunnur íþróttamaður; lék handknattleik með Þór og knattspyrnu með ÍBA og Þór, og var síðar formaður Þórs um árabil.
- Synir þeirra þrír, Sigurpáll Árni, Geir Kristinn og Heiðar Þór voru allir góðir handboltamenn og svo skemmtilega vildi til að allir léku þeir í sömu stöðu á vellinum – í vinstra horni.
Úrklippa úr Morgunblaðinu 14. apríl 1976, fyrir tæpri hálfri öld.