„Ólympíurjómaterta“ fyrir Nönnu Leifsdóttur

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 74
Akureyringar eignuðust Íslandsmeistara í svigi kvenna á dögunum þegar Sonja Lí Kristinsdóttir nældi í fyrstu gullverðlaun sín í fullorðinsflokki. Margar akureyrskar konur hafa verið í fremstu röð og orðið Íslandsmeistarar í svigi oftar en einu sinni og í tilefni sigurs Sonju er gamla íþróttamyndin þessa helgina sótt liðlega fjóra áratugi aftur í tímann. Vissulega óvenjuleg íþróttamynd en skemmtileg.
Nanna Leifsdóttir, Íslandsmeistari í svigi 1982, 1983 og 1984, keppti á Ólympíuleikunum í Sarajevo 1984 og í stórsvigskeppninni varð hún fyrir því óláni að missa annan stafinn. Það var vitaskuld ekkert grín en þegar hún kom heim slógu nokkrar nágrannakonur fjölskyldu Nönnu í Goðabyggð á Akureyri á létta strengi. Þær héldu skíðadrottningunni kaffiboð og buðu upp á „Ólympíurjómatertu“ með brekku og öllu tilheyrandi og í brekkunni var meira að segja skíðakona, sem búin var að missa annan stafinn!
„Ólympíutertan“ var leyndarmál alveg þar til bragða átti á henni og var bundið fyrir augu Nönnu meðan hún var leidd að kaffiborðinu. Myndin er tekin á því augnabliki sem Nanna fékk að sjá herlegheitin, sem komu henni skemmtilega á óvart.
Á myndinni eru, frá vinstri: Guðfinna Óskarsdóttir, Hólmfríður Hreinsdóttir, Guðríður Friðfinnsdóttir, Margrét Ögmundsdóttir, Nanna Leifsdóttir, Ása Leósdóttir, Ólöf Arngrímsdóttir, Erna Sigurjónsdóttir og Sigrún Helgadóttir.