Fara í efni
Íþróttir

Stórskyttan Heiðmar Felixson í 6. flokki

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 71

Lið TSV Hannover-Burgdorf trónir á toppi efstu deildar Þýskalandsmótsins í handbolta – Bundesligunni – og því tilvalið að gamla íþróttamyndin þessa helgina sé af Heiðmari Felixsyni, þeim kunna kappa. Heiðmar, sem er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf, hleypir þarna af í leik með 6. flokki Þórs fyrir margt löngu í íþróttahúsi Glerárskóla í upphafi glæsilegs ferils.

Heiðmar, sem er fæddur 1977, kom víða við á handboltaferlinum. Hann steig fyrstu skrefin í meistaraflokki með Þór, lék síðan með KA 1995-1997 og varð bikarmeistari vorið 1996 og Íslandsmeistari 1997. Næstu tvö ár (1997-1999) var hann í herbúðum Stjörnunnar í Garðabæ og síðan lék hann tvö ár (1999-2001) með Wuppertal í Þýskalandi. Þaðan sneri Heiðmar aftur heim og lék einn vetur með KA – þann síðasta á Íslandi – og kvaddi sem Íslandsmeistari, þegar KA-menn urðu meistarar í seinna skipti, vorið 2002.

Ísland - Spánn - Þýskaland

Heiðmar lék með Bidasoa í Irún á norðurströnd Spánar 2002-2004, félaginu sem Alfreð Gíslason lék með 1989-1991. Frá Baskalandi hélt Heiðmar til Þýskalands; gekk til liðs við TSV Hannover-Burgdorf, félagið sem hann starfar hjá í dag, og lék í fimm ár með liðinu, 2004-2009. Hannover-Burgdorf var í 3. deild þegar Heiðmar samdi við félagið en tryggði sér sæti í efstu deild vorið 2009. Heiðmar, sem var orðinn 32 ára, lét þá gott heita og lék næstu ár í neðri deildunum og hóf þjálfaraferilinn samhliða því að leika.

Keppnisskó sína lagði Heiðmar á hilluna vorið 2014 og hefur starfað sem þjálfari síðan. Stýrði fyrstu árin TSV Burgdorf í neðri deildum en var ráðinn aðstoðarþjálfari TSV Hannover-Burgdorf 2021.

Heiðmar lék 55 landsleiki fyrir Ísland og tók m.a. þátt í heimsmeistaramótunum 2001 og 2003. Fyrstu landsleikir Heiðmars voru gegn Sádi-Arabíu 1999. Hann skoraði alls 56 mörk með landsliðinu á árunum 1999 til 2004, mest 10 mörk í einum og sama leiknum, gegn Ástralíu á HM
í Portúgal 2003. Leikurinn fór fram í Viseu og endaði 55:15.

Hefði getað orðið betri í fótbolta

Gaman er að geta þess að Heiðmar var mjög liðtækur knattspyrnumaður. Sagði raunar í viðtali við þann sem þetta skrifar sumarið 2006 að líklega hefði hann getað orðið betri í fótbolta en handbolta, hefði hann valið fyrrnefndu greinina.

Heiðmar kom fram á sjónarsviðið sem knattspyrnumaður sumarið 1993, 16 ára að aldri, þegar hann lék fyrst með meistaraflokki Þórs í efstu deild Íslandsmótsins. Hann tók þátt í níu leikjum í deildinni það sumar og þeir urðu ekki fleiri í efstu deild. Hann lék gjarnan knattspyrnu hér heima þegar hann var í sumarfríi sem atvinnumaður í handbolta. Tók alls þátt í 42 leikjum í næst efstu deild og gerði 10 mörk; með Þór, Reyni Árskógsströnd, Dalvík og Dalvík/Reyni.