Íslandsmeistari í golfi 5 ár í röð – 6 sinnum alls
GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XXIX
Björgvin Þorsteinsson, sem hér slær af teig um 1980, er sigursælasti kylfingur í sögu Akureyrar. Hann varð sex sinnum Íslandsmeistari í fullorðinsflokki í golfi, sá næst sigursælasti í karlaflokki frá upphafi – Akurnesingurinn Birgir Leifur Hafþórsson varð meistari sjö sinnum.
Björgvin varð fyrst Íslandsmeistari í fullorðinsflokki 1971, lenti í öðru sæti árið eftir en gerði sér svo lítið fyrir og varð Íslandsmeistari fimm ár í röð, 1973 til 1977. Það afrek hefur enginn leikið eftir. Hann varð margfaldur klúbbmeistari og Íslandsmeistari öldunga, auk þess sem Björgvin var landsliðsmaður í fjöldamörg ár.
Björgvin lék á 55 Íslandsmótum í röð, sem er einstakt. Íslandsmótin urðu alls 56, hann tók síðast þátt þegar mótið fór fram á Jaðarsvelli á Akureyri í ágúst árið 2021, eftir tveggja ára hlé vegna veikinda. Hann lést í október það ár, 68 ára að aldri.
Á síðasta Íslandsmótinu sem Björgvin tók þátt í var í fyrsta sinn keppt um Björgvinsskálina; verðlaunagrip sem Björgvin hlaut fyrir fyrsta Íslandsmeistaratitilinn, þegar hann varð meistari í unglingaflokki 17 ára að aldri á heimavelli sínum, Jaðarsvelli, árið 1970. Hann ánafnaði Golfsambandi Íslands skálina og verður hún héðan í frá veitt þeim áhugamanni sem leikur á lægsta skori í kvenna- eða karlaflokki á Íslandsmótinu ár hvert.
Skömmu fyrir andlátið var Björgvin sæmdur Heiðurskrossi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands á þingi ÍSÍ. Hann var virkur í leiðtogastörfum innan íþróttahreyfingarinnar árum saman; sat m.a. annars í stjórn Golfklúbbs Akureyrar 1967 til 1969 og í stjórn Golfsambands Íslands 1998 til 2002. Björgvin sat í Áfrýjunardómstól ÍSÍ þegar hann lést og hafði verið kjörinn á Íþróttaþingum ÍSÍ til starfa hjá dómstólnum í ríflega tuttugu ár.