Fara í efni
Íþróttir

Íslandsmeistarar Þórs í 2. flokki 1969

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XLVI

Kvennalið Þórs í körfubolta mætir Keflvíkingum í Meistarakeppni KKÍ í dag og þá er upplagt að nota tækifærið og birta mynd af liði Þórs í 2. aldursflokki sem varð Íslandsmeistari í körfubolta árið 1969 – fyrir 55 árum. Þess má að Þór varð einnig Íslandsmeistari í meistaraflokki þennan sama vetur.

Á myndinni eru, frá vinstri: Aðalbjörg Helgadóttir, Ásta Pálmadóttir, Viktoría Hannesdóttir, Arna Jónsdóttir, Guðný Jónsdóttir, Inga Ólafsdóttir, Friðný Jóhannesdóttir og Aðalbjörg Ólafsdóttir. Þjálfari liðsins var Einar Bollason. 

Lið Héraðssambands Snæfells og Hnappadalssýslu (HSH) sigraði með yfirburðum í Vesturlandsriðli og var af mörgum talið eitt besta kvennalið, sem komið hafði fram en í úrslitaleik í Íþróttaskemmunni á Akureyri sigruðu Þórsstúlkurnar örugglega, 17:9.

Eftir að hafa óskað Þórsurum til hamingju, sagði blaðamaður Akureyrarblaðsins Dags: „Þá skal þakka snæfellsku stúlkunum fyrir komuna til Akureyrar, en þær lentu í nokkrum erfiðleikum á heimleið, þá er bíll þeirra valt á Öxnadalsheiði, en sem betur fór sluppu þær allar ómeiddar þótt töluverðar skemmdir yrðu á bílnum.“