Fara í efni
Íþróttir

Haukur Dúdda, Hreiðar, Lalli, Árni og Gógó ...

Gamla íþróttamyndin sem birtist á laugardag vakti athygli lesenda, sem er gleðilegt enda leikurinn ekki síst til þess gerður.

Myndin er tekin við upphaf keppni í 1.500 metra hlaupi árið 1951 á Íþróttavellinum við Hólabraut á Akureyri.

Haraldur Sigurðsson, Lalli Sig, var auðþekktur lengst til vinstri, frakkaklæddur. Upplýsingar hafa nú borist um nöfn þriggja hlaupara og tveggja starfsmanna til.

Hlaupararnir eru, frá vinstri, Haukur Jakobsson, gjarnan kallaður Haukur Dúdda, Hreiðar Jónsson, lengi starfsmaður íþróttavallarins og íþróttaskemmunnar – oft kallaður Johnson – og lengst til hægri er Aðalgeir Jónsson, sem drukknaði ungur. Fjórði hlauparinn leynist á milli Hreiðars og Aðalgeirs, það er líklega Þórsarinn Kristinn Bergsson en hinir þrír voru KA-menn.

Lalli Sig er lengst til vinstri, sem fyrr segir. Tímavörðurinn lengst til hægri er Ragnar Sigtryggsson – „Gógó“ – fyrsti landsliðsmaður Akureyrar í knattspyrnu, við hlið hans, einnig frakkaklæddur, er Árni Ingimundarson og síðan Hjálmar Pétursson.

Fyrir aftan mitt bak Hauks Dúdda sést í kollinn á ungum dreng. Yngri bróðir Hreiðars, dr. Ingimar Jónsson, telur líklegt að þar sé hann sjálfur á ferð.