Grjótharður völlur en frábært útsýni!
GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XXI
Efsta deild Íslandsmóts karla í knattspyrnu, Besta deildin, hefst um helgina og tekur KA á móti HK í fyrstu umferðinni á morgun. Af því tilefni er upplagt að gamla íþróttamyndin þessa vikuna sé úr leik í fyrstu umferð 1. deildar (eins og efsta deild kallaðist þá) fyrir 43 árum – vorið 1981. KA tók þá á móti Akurnesingum á Sanavellinum og gestirnir unnu 1:0.
Mynd úr leik Þórs og KA á Sanavellinum – gamla íþróttamyndin fyrir nokkrum vikum – vakti mikla athygli lesenda. Þá var völlurinn eitt drullusvað en á mynd dagsins er hann hins vegar grjótharður og alsettur litlum steinvölum eins og sjá má ef rýnt er í myndina.
Það áhugaverðasta við myndina er í raun áhorfendastúkan! Sanavöllurinn var í fjöruborðinu á milli athafnasvæða Slippstöðvarinnar og Útgerðarfélags Akureyringa; þar sem nú er gámasvæði Akureyrarhafnar, neðan við verslun Hagkaups. Völlurinn var kenndur við Sana, brugghús og gosdrykkjaverksmiðju þar sem nú er samskonar starfsemi í nafni Coca-Cola Europacific Partner á Íslandi hf.
Árið 1981 voru gámar farnir að setja svip á svæðið og komu sér vel þegar kappleikir fóru fram eins og sjá má. Nú er krafist stúku með þaki þegar leikið er í efstu deild og næsta víst að aðstæður fyrir 43 árum stæðust ekki öryggiskröfur. En því verður ekki á móti mælt að útsýni úr stúkunni varð var betra en þarna!
Gaman er að bera saman hvað blaðamenn sögðu um aðstæður þegar KA og ÍA mættust:
- „Völlurinn sjálfur var ágætur, sól skein í heiði, en norðan kuldastrekkingur setti leiðinlegt mark á leikinn,“ sagði Akureyrarblaðið Dagur.
- „Það er ekki grænt strá að sjá á grasvellinum á Akureyri og hann verður örugglega ekki leikhæfur fyrr en eftir margar vikur. Leikur KA og ÍA á laugardaginn fór því fram á svokölluðum Sanavelli á Oddeyri, sem er malarvöllur. Leikmenn kvörtuðu mjög yfir vellinum, sögðu hann vera harðan sem malbik. Og ekki bætti úr skák að norðan strekkingur var á meðan leikurinn fór fram,“ sagði Sigtryggur Sigtryggsson í Morgunblaðinu.