Frjálsíþróttamenn á æfingu í Eyjafirði
GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XXXII
Þessi stórskemmtilega mynd er af akureyrskum frjálsíþróttamönnum á æfingu fyrir margt löngu. Talið er að hún sé tekin austan Eyjafjarðarár, á svæðinu neðan við Laugaland þar sem knattspyrnuvöllur var gerður síðar. Á staðnum æfðu Akureyringar stundum og kepptu einnig við UMSE, að sögn gamallar frjálsíþróttakempu.
Ekki hefur tekist að nafngreina alla á myndinni. Lengst til vinstri er sennilega hlauparinn Björn Sveinsson, fimmti frá vinstri er án efa Kári Árnason – þekktari sem knattspyrnumaður, ekki er vitað hver er við hlið Kára en sá næsti er Sveinn Kristdórsson. Aftan við jeppann stendur Hörður Jóhannsson frá Garðsá.
Lesendur sem þekkja fleiri á myndinni með nafni eða luma á skemmtilegum sögum eða einhvers konar upplýsingum um frjálsíþróttaæfingar og keppni á árum áður eru hvattir til að senda línu á netfangið skapti@akureyri.net
UPPFÆRT - Ásgrímur Ágústsson ljósmyndari á Akureyri tók þessa mynd. Hann staðfestir að þetta sé á svæðinu neðan við Laugaland í Eyjafjarðarsveit.