Fara í efni
Íþróttir

Fleiri nafngreindir í leikfimihópnum

Mynd af Magnúsi Péturssyni og drengjum í Leikfimifélagi Akureyrar, sem Akureyri.net birti sem gömlu íþróttamyndina fyrir nokkrum vikum, vakti mikla athygli. Fljótlega voru þrír drengjanna nafngreindir og nú hafa meiri upplýsingar borist.

  • Fengist hefur staðfest hjá Sólveigu Elvínu Sigurðardóttur að maðurinn hennar heitinn, Ottó Aríus Snæbjörnsson, er þriðji frá hægri í öftustu röðinni - í græna hringnum.
  • Talið er að fjórði frá hægri í öftustu röð, við hlið Ottós, geti verið Páll Emilsson Línberg. Blár hringur er dreginn um höfuð hans.
  • Fjórði frá vinstri í öftustu röð, í gula hringnum, gæti verið Jakob Emilsson, hálfbróðir Páls.
  • Drengurinn við hlið Magnúsar í miðröðinni fyrir framan Ottó, í fjólubláa hringnum,  gæti verið Hilmir Ásgrímsson.
  • Svo er það drengurinn í rauða hringnum, annar frá vinstri í öftustu röð. Talið er að það geti verið Sverrir Árnason járnsmiður. Einn sona hans er Ragnar Sverrisson, til áratuga kaupmaður í Herradeild JMJ. 

Akureyri.net hvetur fólk til að rýna enn betur í myndina og reyna að bera kennsl á fleiri drengi. Góð mynd er mun meira virði en ella ef fólk er nafngreint.
_ _ _

Upphaflega voru þrír drengjanna nafngreindir og þá var myndin hér að neðan birt.

  • Grænn hringur er dreginn um andlit Herberts Jónssonar sem lengi var yfirtollvörður á Akureyri.
  • Við hlið hans er Árni Ingimundarson skrifstofumaður, þekktur píanóleikari og kórstjóri - blár hringur er dreginn um andlit hans.
  • Í rauða hringnum er Lýður Sigtryggsson, frábær harmonikkuleikari og vel þekktur í Evrópu, lengi búsettur í Noregi.

Smellið hér til að sjá fyrstu gömlu íþróttamyndina, sem birtist 18. nóvember á síðasta ári. Allir hinar birtast fyrir neðan þessa.